Tungumál sjálfsmynda | fjölskyldustund óháð tungumáli

10.03 kl. 13-15

1.3.2018

Laugardaginn 10. mars kl. 13.-15. verður haldin ljósmyndasmiðja þar sem unnið verður með sjálfsmyndir og ímyndir í tengslum við sýninguna Líkamleiki í Gerðarsafni.


Í smiðjunni verður skoðað á hvaða hátt sjálfsmyndir eða sjálfur (en. selfies) eru notaðar til þess að varpa ljósi á félagslegt umhverfi okkar, stöðu í samfélaginu og hvernig við skilgreinum okkur eftir þjóðerni. Unnið verður með sjálfur á mismunandi hátt og gefst þátttakendum meðal annars tækifæri á að taka sjálfsmynd í ljósmyndastúdíói sem sett verður upp á neðri hæð safnsins.


Smiðjan verður óháð tungumáli og er ætluð allri fjölskyldunni. Leiðbeinendur tala íslensku, arabísku, frönsku, ensku og þýsku og er markmiðið að byggja upp samskipti þvert á tungumál og menningarheima. Soumia I. Georgsdóttir ráðgjafi fyrir innflytjendur er sérstakur verkefnisstjóri smiðjanna en sjálfsmyndasmiðjan er önnur af fjórum listsmiðjum sem hlaut styrk frá nefnd um fullveldisafmæli Íslands. Markmiðið með smiðjunni að bjóða nýja Íslendinga velkomna og byggja brú milli ólíkra menningarheima í krafti myndlistar.


Viðburðurinn er liður í Fjölskyldustundum Menningarhúsanna í Kópavogi sem fara fram á hverjum laugardegi á Bókasafni Kópavogs, Gerðarsafni, Héraðsskjalasafni Kópavogs, Náttúrufræðistofu eða í Salnum.


Dagskráin er opin öllum og aðgangur ókeypis.