Menning á miðvikudögum | Hádegisleiðsögn um Staðsetningar

mið. 6. des 12:15

5.12.2017

Verið velkomin í hádegisleiðsögn um sýninguna Staðsetningar næstkomandi miðvikudag 6. desember kl. 12:15 í Gerðarsafni. 

Staðsetningar er sýning í tveimur hlutum á verkum Einars Garibalda Eiríkssonar og Kristjáns Steingríms Jónssonar. Á fyrri hluta sýningarinnar voru sýnd nýleg verk listamannanna en nú má í báðum sölum safnsins skyggnast inn í sköpunar- og vinnuferli þeirra eins og þau hafa mótast síðustu áratugi. Verk þeirra fela meðal annars í sér athuganir á náttúru, stöðum og staðsetningum, ásamt því að báðir velta fyrir sér sambandi okkar mannfólksins við umhverfi okkar.

Leiðsögnin er liður í Menningu á miðvikudögum sem er nýr dagskrárliður Menningarhúsanna í Kópavogi. Dagskráin fer fram alla miðvikudaga ýmist í Gerðarsafni, Salnum, Náttúrufræðistofu, Héraðsskjalasafni eða Bókasafni Kópavogs. Meðal viðburða eru hádegistónleikar, bókaumfjallanir, upplestrar og stuttar hádegisleiðsagnir. Allir viðburðir Menningar á miðvikudögum eru gestum að kostnaðarlausu.