Sýningarstjóraspjall með Jóni Proppé

29. okt kl. 15

26.10.2017

Verið velkomin á sýningarstjóraspjall með Jóni Proppé næstkomandi sunnudag, 29. október kl. 15. Viðburðurinn markar síðasta dag fyrri hluta sýningarinnar Staðsetningar en seinni hlutinn opnar föstudaginn 3. nóvember kl. 20. 

Staðsetningar er sýning á verkum Einars Garibalda Eiríkssonar og Kristjáns Steingríms Jónssonar, sem unnið hafa með málverkið um árabil. Einar Garibaldi og Kristján Steingrímur hafa báðir mótað með sér persónulega nálgun í rannsóknum sínum á náttúru, stöðum og staðsetningum. Einar Garibaldi skoðar kennileiti, landakort og merki í náttúrunni og vekur athygli á því hvernig skilningur okkar á umhverfinu mótast og breytist. Kristján Steingrímur leitar út í náttúruna og vinnur verkin úr sjálfum jarðveginum. Í stað þess að mála mynd af staðnum, málar hann "með" staðnum.

Staðsetningar er sýning í tveimur hlutum. Á fyrri hluta sýningarinnar má sjá ný verk listamannanna en á seinni hluta sýningarinnar verður veitt frekari innsýn í vinnuaðferðir og rannsóknir þeirra. 

Aðgangur á safnið gildir á viðburðinn.