Lokavika sýningarinnar Cycle - Fullveldi | Nýlenda

26.9.2017

Listahátíðin Cycle hefur staðið yfir í september með smiðjum, vinnustofum, fyrirlestrum, kvikmyndasýningum, opnum kvöldverðum, tónleikum, kvikspuna, gjörningum og myndlistarsýningu. Hátíðinni lauk á sunnudaginn 24. september og stendur sýningin Fullveldi | Nýlenda til sunnudagsins 1. október. 

Á sýningunni má sjá verk Darra Lorenzen (IS), Ragnars Kjartanssonar, (IS) Ólafs Ólafssonar (IS) og Libiu Castro (ES), Andrew Ranville (US) og Jeannette Ehlers (DK). Á sýningunni - sem og á listahátíðinni allri - er sjónum beint að fullveldi og nýlendum með áherslu á Grænland, Færeyjar og Ísland og samband landanna við Danmörku í nútíð og fortíð.

Sýningin er opin á hefðbundnum opnunartímum safnsins, þriðjudaga til sunnudaga kl. 11-17.Menning á miðvikudögum 


Hádegistónleikar: Hádegi í París

Boðið verður upp á menningardagskrá á hverjum miðvikudegi í Menningarhúsunum í Kópavogi í vetur. Nú á miðvikudaginn, 27. september kl. 12:15, verða hádegistónleikarnir Hádegi í París í Salnum, þar sem Hafdís Vigfúsdóttir flautuleikari og Svanur Vilbergsson gítarleikari leika tónlist eftir Poulenc, Ibert, Debussy og Ravel. Aðgangur á tónleikana er ókeypis, líkt og á alla dagskrá Menningar á miðvikudögum.

Menning á miðvikudögum er ýmist í Gerðarsafni, Salnum, Héraðsskjalasafni Kópavogs og Bókasafni Kópavogs. Fyrsta og þriðja miðvikudag í mánuði býður Héraðsskjalasafn Kópavogs upp á ljósmyndagreiningu kl. 10:30-11:30. Hina miðvikudagana skiptast Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs og Salurinn á ða bjóða upp á hádegistónleika, bókaumfjöllun, upplestra og stuttar hádegisleiðsagnir.