Cycle | Ómöguleikar, einleikur og konur í kvikmyndagerð

11.-17. september

11.9.2017

Listahátíðin Cycle stendur yfir allan september mánuð í Gerðarsafni með smiðjum, vinnustofum, fyrirlestrum, kvikmyndasýningum, opnum kvöldverðum, tónleikum, kvikspuna, gjörningum og myndlistarsýningu. Cycle hefur staðið frá árinu 2015 og tekur nú fyrir 100 ára fullveldisafmæli Íslands með áherslu á Grænland, Færeyjar og Ísland og samband landanna við Danmörku í nútíð og fortíð. 

Í tilefni hátíðarinnar er sýning í Gerðarsafni með verkum Darra Lorenzen, Ragnars Kjartanssonar, Ólafs Ólafssonar og Libiu Castro, Andrew Ranville og Jeannette Ehlers auk viðburðardagskrárinnar. Sýningin er opin á hefðbundnum opnunartímum safnsins, þriðjudaga til sunnudaga kl. 11-17.

Á dagskrá annarrar viku listahátíðarinnar eru tónleikar, vinnustofur, kvikmyndasýningar, gjörningar og verk í vinnslu. Að neðan má sjá valda viðburði og er ítarleg dagskrá Cycle á
síðu hátíðarinnar.

KONUR, VALDEFLING OG KVIKMYNDAGERÐARLIST Á V-NORRÆNA SVÆÐINU | Vinnustofa
11. september kl. 19

Á vinnustofunni Konur, valdefling og kvikmyndagerðalist á V-Norræna svæðinu verður fjallað um heim kvikmyndagerðarlistarinnar, möguleika og hindranir í kvikmyndagerðarlist til valdeflingar kvenna auk pallborðs- og opinna umræðna. Í kjölfarið verða sýndar stuttmyndir og dæmi úr kvikmyndum, m.a. tvær færeyskar stuttmyndir, valdar af Ingunni Olsen. Ein stuttmyndanna sem verður sýnd er Anahí's Room (2017) eftir Ivalo Frank í samvinnu við Jessie Kleeman.
Þátttakendur eru Dögg Mósesdóttir, leikstjóri og handritshöfundur, Ivalo Frank, leikstjóri og kvikmyndagerðar- og vídjólistakona, Ingun Olsen, kvikmyndagerðarkona og framleiðandi og Ragnheiður Gestsdóttir, lista- og heimildamyndagerðarkona.

ÓMÖGULEIKI | Tónleikar 
12. september kl. 20

Tónleikarnir Ómöguleiki er nýjasta verkefni dúós Hellqvist/Amaral og listamannahópsins Impossible Situations inniheldur verk eftir Idu Lundén, Marinu Rosenfeld og Øyvind Torvund. Í verki Lundén; ba-ro-me-ter - Variations in air and sound pressure, sem verður heimsfrumflutt á tónleikunum, þá leika fiðla og píanó mynstur eftir nokkrum af fyrstu hljóðupptökunum sem voru gerðar af Édouard-Léon Scott de Martinville fyrir rúmlega 160 árum síðan með phonautograph. Verkið My red, red blood (2011) eftir Rosenfeld, sem heyrist hér í fyrsta sinn í dúóútgáfu, er byggt á stemmningu eins-rása vídeóskors úr tilraunakenndum senum ljóðskáldsins Kim Rosenfield um gamanleikara (sem var til) er skemmtir bandarískum hermönnum erlendis. Í verki Torvunds; Plans for future violin and piano pieces (2016), má að lokum líta margmiðlunarútfærslu, sem samsafn af ímynduðum tónlistarlegum hugmyndum, sem væri í  raun ómögulegt að útfæra. Aðgangseyrir á safnið gildir sem miði á tónleikana.

EINLEIKUR | Tónleikar
14. september kl. 20

Með tónleikunum Einleik veltir flytjandinn Andreas Borregaard upp spurningum um eðli lifandi flutnings og nálægðar flytjandans við áhorfendur. Er þörf á lifandi flutning nú þegar tölvutæknin er það þróuð að hægt er að skapa hvers konar hljóðheim í tölvum?
Til að rannsaka vægi lifandi flutnings og til að mæla eðli og krafts flytjandans, spilar harmónikkuleikarinn Andreas Borregaard þrjú ný verk eftir Jennifer Walshe, Simon Steen-Andersen og Niels Rønsholdt. Þessi tónskáld hafa hvað mest dregið hreyfingar, líkamleika og kraft flytjandans inn í tónsmíðar sínar. Verkin eru því bæði samin fyrir hljóðfærið sjálft sem og líkama flytjandans og gætu því verið túlkuð sem dansverk eða gjörningur jafnt sem tónlistarflutningur. Aðgangseyrir á safnið gildir sem miði á tónleikana.