Sumarið í Gerðarsafni / Myndlist, vísindi og ritlist

28.6.2017

Í blómstrandi listalífi Parísar árin 1950-70; í meistaranámi við The School of Visual Arts í New York, sumarlangt við Bard College í New York fylki og í Brooklyn árin uppúr 2010; í Beirút haustið 2016; á Íslandi frá 1920 og fram á daginn í dag; í Kaupmannahöfn árin 2016 og 2017; í Hollandi uppúr 1970; í Þýskalandi af og til 1960-1975; í Flórens á Ítalíu 1940-1950; í Kópavogi frá 1994 til dagsins í dag; í Egyptalandi haustið 1966.


Á sýningunni Innra, með og á milli er Gerði Helgadóttur (1928-1975) boðið að taka þátt í samfelldu samtali listamannanna Ragnheiðar Gestsdóttur (IS), Theresu Himmer (DK/IS) og Emily Weiner (US). Samtal þeirra og könnun á ólínulegri túlkun á stað og tíma, tungumáli og þýðingum tók á sig áþreifanlega mynd haustið 2015 þegar þær umbreyttu rannsóknum sínum í sýninguna Speak Nearby í Soloway í Brooklyn, New York. Listamennirnir kynntust við MFA nám í School of Visual Arts í New York árið 2011. Sýningunni er ætlað að fanga vangaveltur um samhengi, tíma og skrásetningu sögunnar þar sem listamennirnir fjórir standa jafnfætis þvert á stað og tíma – einhvers staðar inn á milli. 

Sumarnámskeið í Menningarhúsunum í Kópavogi

Engill kemur í heimsókn

Rit- og myndlistarnámskeið fyrir 8-13 ára

Dagana 8. - 11. ágúst munu rithöfundurinn Gerður Kristný og myndlistamaðurinn Guðrún Benónýs leiða námskeið í Gerðarsafni fyrir börn á aldrinum 8 til 13 ára.

Námskeiðið hverfist um málverk eftir Hugo Simberg og þátttakendur velta fyrir sér hvernig venjulegt líf og umhverfi listamannsins getur blandast inn í listaverk hans. Meðal spurninga sem velt verður upp er hvernig tákn og litir geta haft á hvernig við upplifum listaverk.

þátttakendur skapa sitt eigið listaverk sem sýnt verður í Stúdíó Gerðar í lok námskeiðs. 

Sköpunarkraftur í formi söguskrifa verður svo virkjaður með Gerði Kristnýju sem veltir fyrir sér hvernig maður segir áhugaverða sögu og hvernig þekktustu rithöfundar heims hafa fengið hugmyndir. Sama málverkið verður notað til að þjálfa þátttakendur í að hugsa út fyrir rammann og skrifa sögu.

Námskeiðstími. 8. - 11. ágúst frá kl.10:00 - 14:30. Hámarksfjöldi á námskeiðinu eru 20 börn.

Námskeiðsgjald er kr. 16.000. Systkinaafsláttur er í boði.

Nánari upplýsingar veitir Ólöf Breiðfjörð á netfang menningarhusin@kopavogur.is Ritlist, vísindi og myndlist

Heilsdagsnámskeið fyrir 6-9 ára

Í sumar bjóða Menningarhúsin í Kópavogi í annað sinn upp á heilsdagsnámskeið fyrir börn á aldrinum 6 til 9 ára. Námskeiðið fer fram í Náttúrufræðistofu, Bókasafni Kópavogs og í Gerðarsafni.

Námskeiðið er vikuna 14. – 18. ágúst kl. 9 - 16

Fyrir hádegi fer námskeiðið fram á Náttúrufræðistofu annarsvegar og aðalsafni Bókasafns Kópavogs hinsvegar en eftir hádegi í Gerðarsafni. Boðið verður upp á fjöruferðir og náttúrurannsóknir í Náttúrufræðistofu og ljóðasmiðju með Höllu Margréti Jóhannsdóttur fyrir hádegi. Listsmiðja með myndlistarmönnunum Bryndísi Hrönn Ragnarsdóttur og Linn Björklund fer fram eftir hádegi þar sem verða unnin þrívíddarverk í anda Gerðar Helgadóttur í Gerðarsafni.

Í hádegishléi munu leiðbeinendur á vegum Kópavogsbæjar sjá um nestistíma og fara í leiki á útivistarsvæði Menningarhúsanna.

Þátttakendur þurfa að hafa meðferðis hollt og gott nesti, hlífðarföt og stígvél.

Hámarksfjöldi á námskeiðið er 18 börn.

Námskeiðsgjald: kr. 24.000. Systkinaafsláttur er í boði. 

Nánari upplýsingar veitir Ólöf Breiðfjörð í síma 441 - 7607 eða á netfangið: olof@kopavogur.is