Sýningarlok / NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA 

13. janúar -19. mars

14.3.2017

Sýningin er hugleiðing um birtingarmyndir hversdagsleikans í íslenskri samtímalist og er þar nýjum verkum tvinnað saman við verk frá tíunda áratugnum þar sem má finna aðdáun á því sem er óvenjulega venjulegt. Sýningin var framlengd vegna góðra viðtaka og hlaut fjórar stjörnur í dómi í Morgunblaðinu í vikunni. 

Á sýningunni í Gerðarsafni kemur fram áhugaverð skoðun á hinu hversdagslega í samtímalistinni, húmor í bland við ígrundaða efnisnotkun þar sem eiginleikar efnis fjöldaframleiðslunnar eru rannsakaðir, vísað til hins ósagða og þess sem er fjarverandi í heilsteyptri og skemmtilegri sýningu. 
Úr dómi Aldísar Arnardóttur í Morgunblaðinu


Á sýningunni NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA er hversdagsleikinn skoðaður frá sjónarhorni ellefu listamanna sem eiga það sameiginlegt að vinna verk sem verða til ​úr efni og aðstæðum hversdagsins og gera það hver með sínum persónulega hætti,​ hvort sem er á hugmyndalegan, myndrænan eða rýmislegan hátt​. Hér á hugtakið „hversdags“ ekki við um það sem er fábrotið eða ómerkilegt. Þvert á móti eru verkin á sýningunni póetísk. Þau varpa ljósi á fagurfræði hluta, þar sem kringumstæður hversdagsins eru undirstrikaðar og hið venjulega öðlast nýja merkingu með því að vera sett í óvænt samhengi. Verkin ​vekja með þessum hætti upp spurningar um þýðingu hins venjubundna og heimilislega í samtímanum​.

Listamenn: Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Arnfinnur Amazeen, Emma Heiðarsdóttir, Finnur Arnar Arnarson, G.Erla - Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Loji Höskuldsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Sveinn Fannar Jóhannsson, Þorvaldur Þorsteinsson.
Sýningarstjóri: Heiðar Kári Rannversson.