Gerður. Meistari glers og málma

12.10.2013

Ritstjóri hennar er Guðbjörg Kristjánsdóttir forstöðumaður Gerðarsafns. Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi ritar inngangsorð. Í bókinni fjalla sjö höfundar um list og æviferil Gerðar Helgadóttur myndhöggvara og glerlistamanns. Ásdís Ólafsdóttir, listfræðingur, skrifar um höggmyndalist Gerðar. Francoise Perrot, fyrrverandi rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarstofnun franska ríkisins, og Caroline Swash, deildarstjóri hjá glerdeild Central Saint Martins College of Art and Design í London, fjalla um glerlist Gerðar á erlendum glerverkstæðum. Listfræðingarnir Elísa Björg Þorsteinsdóttir og Guðbjörg Kristjánsdóttir skrifa skýringar á Skálholtsgluggum og JBK RANSU, listamaður og gagnrýnandi, fjallar um tengsl Gerðar Helgadóttur við heimsmyndafræði armenska dulspekingsins Gurdjieffs. Þá minnist Elín Pálmadóttir, rithöfundur og blaðamaður, Gerðar vinkonu sinnar. Bók Elínar, Gerður. Ævisaga myndhöggvara, sem varð metsölubók árið 1985, átti stóran þátt í því að opna augu manna fyrir mikilvægi Gerðar í íslenskri myndlist. Loks hefur Guðbjörg Kristjánsdóttir tekið saman æviatriði Gerðar.  Textar bókarinnar eru á íslensku, ensku og frönsku. Hún er ríkulega prýdd ljósmyndum af verkum Gerðar frá öllum tímaskeiðum. Jafnframt fylgja æviatriðum fjölmargar myndir úr lífi listakonunnar. Ámundi Sigurðsson hannaði bókina og hún var prentuið hjá Svansprent.