SKRÍMSLASMIÐJA

21.2.2017

Skrímslasmiðja í Gerðarsafni

25. febrúar kl. 13-15

Leynast skrímsli og furðuverur í Gerðarsafni? Hvað er furðulegasta dýr sem þú getur ímyndað þér? Í smiðjunni verður ævintýravera leitað og skrímsli gerð úr listaverkunum á sýningunni NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA í Gerðarsafni. Finnum það furðulega úr venjulegum hlutum og leyfum hugmyndafluginu að fara á flug!

Smiðjan hentar krökkum á öllum aldri og er ókeypis. Skrímslasmiðjan er liður í Fjölskyldustundum í Menningarhúsunum í Kópavogi þar sem er boðið upp á dagskrá fyrir fjölskyldur á hverjum laugardegi. Heildardagskrá Fjölskyldustunda Menningarhúsanna í Kópavogi má finna hér.        


Hversdagslegt sýningarstjóraspjall 

26. febrúar kl. 15

Heiðar Kári Rannversson sýningarstjóri leiðir gesti um sýninguna NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA sunnudaginn 26. febrúar kl. 15. 

Sýningin er hugleiðing um birtingarmyndir hversdagsleikans í íslenskri samtímalist. Á sýningunni eru verk ellefu listamanna sem eiga það sameiginlegt að vinna verk sem verða til ​úr efni og aðstæðum hversdagsins. Er þar nýjum verkum tvinnað saman við verk frá tíunda áratugnum þar sem má finna aðdáun á því sem er óvenjulega venjulegt.

Hér á hugtakið „hversdags“ ekki við um það sem er fábrotið eða ómerkilegt. Þvert á móti eru verkin á sýningunni póetísk. Þau varpa ljósi á fagurfræði hluta, þar sem kringumstæður hversdagsins eru undirstrikaðar og hið venjulega öðlast nýja merkingu með því að vera sett í óvænt samhengi.
Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjóri.

Listamenn: Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Arnfinnur Amazeen, Emma Heiðarsdóttir, Finnur Arnar Arnarson, G.Erla - Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Loji Höskuldsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Sveinn Fannar Jóhannsson, Þorvaldur Þorsteinsson.