Normið, ljóð og matur

17.1.2017

Sýningin NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA

13. janúar - 12. mars

Sýningin NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA opnaði nýverið í Gerðarsafni og er hugleiðing um birtingarmyndir hversdagsleikans í íslenskri samtímalist. Á sýningunni eru verk ellefu listamanna sem eiga það sameiginlegt að vinna verk sem verða til ​úr efni og aðstæðum hversdagsins. Er þar nýjum verkum tvinnað saman við verk frá tíunda áratugnum þar sem má finna aðdáun á því sem er óvenjulega venjulegt.
Hér á hugtakið „hversdags“ ekki við um það sem er fábrotið eða ómerkilegt. Þvert á móti eru verkin á sýningunni póetísk. Þau varpa ljósi á fagurfræði hluta, þar sem kringumstæður hversdagsins eru undirstrikaðar og hið venjulega öðlast nýja merkingu með því að vera sett í óvænt samhengi.
Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjóri.

Listamenn: Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Arnfinnur Amazeen, Emma Heiðarsdóttir, Finnur Arnar Arnarson, G.Erla - Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Loji Höskuldsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Sveinn Fannar Jóhannsson, Þorvaldur Þorsteinsson.
Sýningarstjóri: Heiðar Kári Rannversson.

Dagar ljóðsins í Menningarhúsunum í Kópavogi


21. - 28. janúar 2017

Ljóðahátíðin Dagar ljóðsins fer fram dagana 21. - 28. janúar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá fæðingu Jóns úr Vör. Á Dögum ljóðsins verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna, áhugafólk um ljóðlist og Jón úr Vör og fer dagskráin fram í Menningarhúsunum í Kópavogi. Meðal viðburða er afhending Ljóstafs Jóns úr Vör og ljóðatónleikarnir Ég sá sauð fyrir börn í Salnum og ritsmiðjuna Búum til bók á Bókasafni Kópavogs. Fimmtudaginn 26. janúar verður Grasrótarkvöld í Garðskálanum í Gerðarsafni þar sem hægt verður að hlýða á ferska strauma í íslenskri ljóðagerð. Heildardagskrá Daga ljóðsins má finna að neðan og á síðu Menningarhúsa Kópavogs.

Nýr matseðill í Garðskálanum

Garðskálinn býr nú upp á nýjan matseðil þar sem má finna dýrindis rétti dagsins, nýbakað súrdeigsbrauð með toppingi dagsins og matarmiklar grænmetissúpur. Um helgar er boðið upp á brönsböku með hleyptu eggi og hollandais sósu og valið er milli þess að fá beikon og glóðaða tómata, reyktan lax eða steikt grænmeti.

Garðskálinn er opinn á opnunartímum safnsins þriðjudaga til sunnudaga kl. 11-17.
Hlökkum til að sjá ykkur!