AÐVENTUHÁTÍÐ Í KÓPAVOGI 

22.11.2016

Verið velkomin á aðventuhátíð í Kópavogi helgina 26.-27. nóvember. Á hátíðinni verður dagskrá fyrir alla fjölskylduna í Menningarhúsunum í Kópavogi og nágrenni.Ljósin á jólatré Kópavogs verða tendruð, jólasveinar og jólaköttur líta í heimsókn auk Villa og Sveppa. Jólakræsingar og varningur til sölu á jólamarkaði. Njótið upphafs aðventunnar í hjarta Kópavogs!

Þakkargjörð og aðventan í Garðskálanum

Garðskálinn býður til þakkargjörðarhátíðar fimmtudaginn 24. nóvember kl. 12-21. Á matseðlinum verður hefðbundinn þakkargjörðarmatur og hátíðarkræsingar. Dagurinn markar líka upphaf jólaseðils Garðskálans sem bíður upp á smárétti svo sem síld, reyktan og grafinn lax, hátíðarpaté auk þess sem boðið er upp á dýrindis andalæri.
Garðskálinn er opinn á opnunartímum safnsins þriðjudaga til sunnudaga kl. 11-17 en á þakkargjörð verður opið til kl. 21.

Sýningin Þá // Gjörningurinn Sepulchral City

Sýningin Þá stendur nú yfir í Gerðarsafni en hún opnaði sem hluti alþjóðlegu listahátíðarinnar Cycle sem stóð yfir 27.-30. október. Á sýningunni eru verk íslenskra og erlendra listamanna, sem fela í sér vísanir í sameiginleg einkenni tónlistar og myndlistar. Í verkunum er tíminn í forgrunni með sífelldum endurtekningum, framtíðarspám og fortíðarminni.
Á laugardaginn verður gjörningur David Levine Sepulchral City flutt í Gerðarsafni, Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs milli kl. 13-17. Verkið er margendurtekinn flutningur á texta Joseph Conrad úr Heart of Darkness frá 1898, sem er sár gagnrýni á nýlendustefnu Vesturlanda.
Auk sýningarinnar er fræðslurýmið Stúdíó Gerðar opið á neðri hæð safnsins. Þar geta börn og fjölskyldur gert eigin listaverk innblásin af sýningunni og farið í teiknileikinn Kvik strik.