Gönguleiðsögn SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR 

22.8.2016

Velkomin á gönguleiðsögn um sýningu Sindra Leifssonar á sunnudaginn 28. ágúst kl. 15. 
Gönguleiðsögnin er hluti af virkni sýningar Sindra í sýningarröðinni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR. Listnemar munu leiða göngu á milli verka Sindra í og í kringum Gerðarsafn. 

Einföld tákn og meðhöndlun efniviðarins eru endurtekin stef í verkum Sindra en umhverfi og samfélag koma gjarnan við sögu. Sýning hans teygir sig út fyrir sýningarrýmið þar sem óljósir skúlptúrar hafa tekið sér tímabundna fótfestu í umhverfinu og er ætlað að draga fram hugmyndir um borgarskipulag og hegðun okkar í rýminu.

SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR er sýningaröð sem hugar að stöðu skúlptúrsins sem miðils í samtímanum. Hér er lögð áhersla á að veita frekari innsýn í hugðarefni listamanna þar sem hver og einn gengur að samtali miðilsins og sögunnar á eigin forsendum. Eva Ísleifsdóttir og Sindri Leifsson leggja fram hugleiðingar um skúlptúrinn á samhliða einkasýningum. Verk og vinnubrögð kunna að vera ólík en hugsunin að baki þeim á margt sammerkt þar sem vangaveltum um mannlega hegðun, umhverfi og mótun samfélagslegs skipulags er velt upp á yfirborðið.

Sindri Leifsson er fæddur árið 1988 í Reykjavík. Hann lauk MFA-gráðu frá Listaháskólanum í Malmö, Svíþjóð árið 2013 og BA-námi frá Listaháskóla Íslands árið 2011. Sindri hefur verið virkur frá útskrift og tekið þátt í fjölda samsýninga má nefna nýliðna samsýningu Hringrás, Berg Contemporary, 2016; #KOMASVO, Listasafni ASÍ, Reykjavík, 2015, Reykjavik Stories - QUARTAIR, Den Haag; Embracing Impermanence, Nýlistasafninu, Reykjavík. 2011 og einkasýningar bæði hérlendis sem og erlendis: Exi(t), Verkstad, rum för konst, Norrköping, Svíþjóð, 2015; Sagað, Kunstschlager, Reykjavík, 2014; The Oracle, Alfred Gallery, Tel Aviv, 2013.www.sindrileifsson.com

Þátttakendur: Íris Indriðadóttir, Jóhann Ingi Skúlason, Ólöf Björk Ingólfsdóttir, Óskar Þór Ámundason og Signý Jónsdóttir.