TILRAUNASTOFA GERÐAR 

SKÚLPTÚRAR ÚR ÓVÆNTUM EFNUM

6.9.2016

Verið velkomin í skúlptúrsmiðju fyrir 5-8 ára krakka í Gerðarsafni á laugardaginn, 10. september kl. 13. Í smiðjunni munum við skoða listaverk eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975) og gera okkar eigin skúlptúra innblásna af verkunum.  Skúlptúrarnir verða gerðir úr óvæntum efnum sem við eigum til heima hjá okkur. Við munum gera tilraunir með geómetrísk form og búa til margskonar skugga með skúlptúrunum. 

Listamaðurinn Linn Björklund mun leiða smiðjuna sem er sniðin að 5-8 ára en allri fjölskyldunni er velkomið að koma saman. Smiðjan hefst stundvíslega kl. 13 með leiðangri um sýningu á verkum Gerðar Helgadóttur í safneignarrýminu +Safneigninni.

Skúlptúrsmiðjan er hluti af fjölskyldustundum í Menningarhúsum Kópavogs, sem haldnar verða á laugardögum í allan vetur. Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs, Héraðsskjalasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Salurinn ljúka upp dyrum sínum og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá sem er gestum að kostnaðarlausu.

Skúlptúrsmiðjan fer fram í Stúdíói Gerðar á neðri hæð safnsins og má þar einnig gera veggverk í anda víraskúlptúra Gerðar Helgadóttur. Sýningar Evu Ísleifsdóttur og Sindra Leifssonar í sýningarröðinni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR, safneignarrýmið +Safneignin og Garðskálinn eru einnig opin.

Hlökkum til að sjá ykkur!