Leiðangur um teiknisafn Valgerðar Briem með Valgerði Bergsdóttur

Stefnumót #4

21.3.2016

Listamaðurinn Valgerður Bergsdóttir leiðir gesti um teiknisafn Valgerðar Briem (1914-2002) á fjórða stefnumóti við safneignina miðvikudaginn 23. mars kl. 17. Valgerður mun ræða verk hennar í sýningunni Blint stefnumót og bjóða gestum í leiðangur í listaverkageymslu að skoða úrval verka hennar.
 
Teiknisafn Valgerðar Briem er ein grunnstoð safneignar Gerðarsafns og samanstendur af rösklega 1640 verkum unnum með margvíslegum teikni- og þrykkaðferðum. Þess á meðal er Landlit (1969-71), myndaröð abstrakt teikninga sem unnar eru með blandaðri tækni og virðast tjá margbreytileika náttúrunnar. Valgerður Briem var mikils metinn myndlistarkennari og bera skissubækur, teikningar og kennslugögn merki um áherslur hennar á óhefta og tjáningarfulla listsköpun. Valgerður sýndi eigin verk örsjaldan og hefur verið nefnd huldukona í íslenskri myndlist.
 
Að loknum leiðangri um safneignina verður sælkerastund í Garðskálanum þar sem súpur, smurbrauð, drykkir og kaffiveitingar eru á matseðli. Eins verður klippimyndasmiðjan Stúdíó Gerðar opin lengur fyrir áhugasama listamenn af yngstu kynslóðinni.
 
Frítt er í safnið á miðvikudögum. Viðburðir fara fram á íslensku.