Sýningaropnun: Blint stefnumót

1.3.2016

Verið velkomin á opnun sýningar um óvænt kynni verka úr safneign Gerðarsafns, laugardaginn 5. mars kl. 15. / Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar opnar sýninguna.

Listaverk lifa undarlegu lífi. Þau verða til í átökum listamannsins við efni sitt og hugmyndir. Þau er sett á sýningu þar sem fólk kemur að skoða þau og það er jafnvel skrifað um þau í blöðin. Svo enda mörg þeirra á söfnum þar sem þau eru geymd með ótal öðrum verkum í dimmum geymslum.

Hvað gerist í geymslunni? Þegar við förum að skoða verkin sem hafa safnast upp í áratugi kemur ýmislegt undarlegt í ljós: Þau þroskast og breytast og mynda óvænt tengsl. Allt í einu virðist náið samband milli verka sem áður sýndust ólík. Abstraktverk reynist nauðalíkt gömlu landslagsmálverki. Konseptverkin fá gömul portrett til að hugsa og á móti eru konseptverkin orðin stolt af fagurfræðilegu yfirbragði sínu.

Sýningin er liður í verkefninu +Safneignin sem er rannsóknar- og fræðslurými á neðri hæð safnsins.

Viðburðir /
Óvæntir gestir eiga stefnumót við safneignina á meðan á sýningu stendur. Kvennakór Kópavogs kemur fyrstur fram sunnudaginn 6. mars kl. 15.