Ljósmyndanámskeið í vetrarfríi Kópavogs

23.2.2016

Dagana 25.-26. febrúar verður vetrarfrí í skólum í Kópavogi. Í tilefni þess verður mikið um að vera í menningarhúsunum við Hamraborgina. Í Gerðarsafni verður boðið upp á tveggja daga ljósmyndanámskeið fyrir 12 ára og eldri þar sem Ingvar Högni Ragnarsson mun kenna grunnatriði í ljósmyndun. Námskeiðið stendur yfir báða dagana, 25.-26. febrúar, og mun hópurinn læra að mynda á eigin myndavél eða síma. Skráning fer fram á gerdarsafn@kopavogur.is

Á námskeiðinu mun Ingvar Högni kenna hópnum tæknileg atriði við ljósmyndun, þar á meðal muninn á filmu og stafrænni ljósmyndun. Hann mun fjalla um mismunandi aðferðir við ljósmyndun og vísa í verk íslenskra og erlendra ljósmyndara. Ingvar Högni mun einnig leiða hópinn um sýningu sína Uppsprettur, sem stendur yfir í Gerðarsafni, og ræða inntak verkanna og aðferðir sínar. Á seinni hluta námskeiðsins munu nemendur gera eigin ljósmyndir og ræða sín verk.

Ingvar Högni Ragnarsson (f. 1981) útskrifaðist frá Listaháskólanum árið 2007 eftir að hafa áður stundað nám við Den Koninklijke Academie von Beeldende Kunsten, Den Haag. Árið 2015 var hann tilnefndur til alþjóðlegu ljósmyndaverðlaunanna Foam Paul Huf Awards sem ætlað er ungum listamönnum. Hann hefur verið valinn sem fulltrúi íslenskra ljósmyndara í fjölda verkefna á síðustu árum og hefur meðal annars sýnt verk sín hérlendis, í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi og Búkarest.
 
Námskeiðið fer fram kl. 13-17 fimmtudaginn 25. febrúar og kl. 13-16 föstudaginn 26. febrúar. Námskeiðið er ætlað 12 ára og eldri og kemur hver með sína myndavél eða síma. Takmarkaður fjöldi kemst að og er tekið við skráningu á netfangið gerdarsafn@kopavogur.is. Námskeiðið er gjaldfrjálst.