Ljósbrot og geislar

Tilraunasmiðja

13.2.2016

Nú á laugardaginn 13. febrúar mun listamaðurinn Guðrún Benónýsdóttir leiða tilraunasmiðju fyrir alla fjölskylduna þar sem við rannsökum ljósbrot og geisla.
Isaac Newton var fræðimaður sem gerði tilraunir með geisla og samkvæmt kenningum hans þá brotnar hvítt ljós upp í sjö liti ef því er beint í gegnum prismaform: fjólubláan, indigobláan, bláan, grænan, gulan, appelsínugulan og rauðan.
Í tilraunastofunni munum við beina geislum ljósa í gegnum ýmis prismaform, glerhluti og litafiltera. Þannig sköpum við regnboga og leikum okkur að ljós og skugga á veggina í dimmu rýminu. Þar prófum við líka að teikna skuggaform, liti og línur út frá tilraununum á blöð á borðinu. 
Smiðjan er ókeypis og opin öllum. Ekki þarf að skrá sig en smiðjan hefst stundvíslega kl. 13.
 
Alla laugardaga í vor verður boðið upp á fjölskyldustund í einhverju menningarhúsanna við Hamraborg. Viðburðir verða ýmist í Gerðarsafni, Bókasafni Kópavogs, Náttúrufræðistofu Kópavogs eða í Salnum. Um er að ræða listasmiðjur, upplestur, tónleika og fleira fyrir börn og unglinga og hefjast viðburðirnir alltaf kl. 13.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.