Safnanótt í Gerðarsafni

4.2.2016

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 5. febrúar frá klukkan sjö til miðnættis. Í Gerðarsafni verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. 


Leiðsögn með Katrínu Elvarsdóttur og Ingvari Högna Ragnarssyni 
19:00 

Katrín Elvarsdóttir og Ingvar Högni Ragnarsson munu ræða við gesti um ljósmyndasýningar sínar, sem standa samhliða í Gerðarsafni. Katrín Elvarsdóttir sýnir ljósmyndaverkið Margföld hamingja sem hún vann í Kína á árunum 2010-2014. Katrín dregur upp mynd af borg á mörkum þess hversdagslega og skáldaða með portrettmyndum af eldra fólki, náttúru í manngerðu umhverfi, híbýlum og fundnum skúlptúrum. Ingvar Högni Ragnarsson sýnir ljósmyndaseríu sem hann vann í Rúmeníu 2015. Ingvar Högni velur sér að huga að hinu rólega andrými hversdagsleikans í verkum sínum þar sem hann dregur fram persónulegt sjónarhorn á umhverfið og einstaklinginn. Um leið afhjúpar hann flókið samspil samfélagsins og stéttaskiptingar, persónulegar sögur um brostna fortíð eða framtíðarvonir.

Leiðsögn í listaverkageymslu Gerðarsafns
20:00 / 21:00 

Á Safnanótt verður boðið upp á leiðsögn um listaverkageymslur og bakland Gerðarsafns. Leiðsögnin er einstakt tækifæri að líta bakvið tjöldin og bera safneignina augum. Einnig verður litið inn í nýtt safneignarrými Gerðarsafns, +Safneignina, og fræðst um innra starf safna, þar á meðal frágang og umönnun listaverka, skráningu og rannsóknir. Tíu manns komast í hverja leiðsögn og fer skráning fram á staðnum.

KLIPP KLIPP - Opin mósaík og klippimyndasmiðja
19:00-23:00
 
Myndlistarmaðurinn Linn Björklund leiðir opna mósaík og klippimyndasmiðju í anda Gerðar Helgadóttur (1928-1975). Í smiðjunni verða gerðar tilraunir með liti og form og vinna gestir og gangandi eina heildstæða veggmynd í sameiningu. Smiðjan er öllum opin kl. 19-23 í Stúdíói Gerðar á neðri hæð Gerðarsafns.

Sælkerastund í Garðskálanum
19:00-24:00

Sælkerastund verður í Garðskálanum á neðri hæð Gerðarsafns á Safnanótt. Þar verða fágætir íslenskir ostar og gæðabjórar í forgrunni á matseðli og einnig fást smurbrauð og kaffiveitingar. Ægir Friðriksson, yfirkokkur staðarins, mun ræða við gesti og gangandi um pörun matar og drykkjar. Garðskálinn er hefur nýverið hafið göngu sína í Gerðarsafni og er rekið af hjónunum Ægi Friðrikssyni og Írisi Ágústsdóttur. Íris er innanhúshönnuður, sem hefur mótað útlit staðarins, og Ægir margverðlaunaður matreiðslumeistari sem hefur meðal annars verið yfirkokkur á Kaffi Flóru og Hótel Reykjavík Natura og Satt.