Jóladjass og sælkerastund í Garðskálanum

14.12.2015

Næstkomandi laugardag, 19. desember, verður sælkerastund hjá Ægi í Garðskálanum. Fágætir íslenskir ostar úr ostakjallaranum paraðir saman við gæðabjóra og eðalhvítvín verða í forgrunni á matseðli og einnig fást smurbrauð og kaffiveitingar. Ægir mun kynna jólakræsingar ásamt matar- og vínsérfræðingum og bjóða gestum og gangandi upp á matarráðgjöf. Eins verður hægt að kaupa góðgæti úr smiðju Ægis, þar á meðal hátíðarpaté, karamellufíkjur og appelsínusíld.

Sælkerastundin hefst kl. 15 og mun Smart2 Djassdúó flytja ljúfa jólatóna. Dúóið skipa Marteinn Sindri Jónsson píanóleikari og Birkir Blær Ingólfsson saxafónleikari.

Garðskálinn hefur nýverið hafið göngu sína í Gerðarsafni og er rekið af hjónunum Ægi Friðrikssyni og Írisi Ágústsdóttur. Ægir er margverðlaunaður matreiðslumeistari sem hefur meðal annars verið yfirkokkur á Kaffi Flóru og Hótel Reykjavík Natura og Satt. Hann lærði á Hótel Sögu og starfaði þar sem aðstoðaryfirkokkur að loknu námi og síðan á Picnic & Restaurante ME í Barcelona.

Garðskálinn er opinn sama tíma og Gerðarsafn, þriðjudaga til sunnudaga kl. 11:00-17:00.