Spjall um SKÚLPTÚR: Habby Osk

18.11.2015

Habby Osk ræða við gesti um einkasýningu sína í sýningarröðinni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR sunnudaginn 22. nóvember kl. 15. 

Baldur Geir Bragason og Habby Osk leggja fram hugleiðingar um skúlptúrinn á samhliða einkasýningum. Verk þeirra eru ólík en hugsunin að baki þeim á margt sammerkt þar sem heimspekilegum vangaveltum um eðli, orsök og afleiðingu listaverksins er velt upp á yfirborðið.

Í verkum Habbyjar Oskar má segja að verkið falli um sjálft sig en stöðugleiki og jafnvægi eru hugtök sem henni eru hugleikin. Verkin breytast, bogna eða bráðna þegar á líður sýningartímann og undirstrika performatíf einkenni þeirra. Habby Osk hefur fengist við ýmsa miðla og er gjörningalistin þeirra á meðal. Á síðustu árum hefur hún þróað með sér persónulega glímu við efnið, hvort sem það er í formi innsetningar eða skúlptúrs. Örfínn jafnvægisleikur með prikum og uppblásnum pokum einkennir innsetninguna Stöðugleika (2015). Við minnsta rask fellur hver spýtan á fætur annarri og myndar fullkomna samhæfingu hins óvænta. 

Habby Osk (1979-) er uppalin á Akureyri en býr og starfar í New York. Hún útskrifaðist með BFA í myndlist frá AKI ArtEz Institute of the Arts í Enschede í Hollandi 2006 og MFA frá School of Visual Arts í New York árið 2009. Habby hefur haldið einkasýningar í Bandaríkjunum og Íslandi, nú síðast á Listasafninu á Akureyri fyrr á árinu. Hún hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum samsýningum víða um heim. 

SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR er sýningaröð sem hefur það að markmiði að kanna stöðu skúlptúrsins sem miðils í íslenskri samtímalist. Hér er lögð áhersla á að veita frekari innsýn í hugðarefni listamanna þar sem hver og einn gengur að samtali miðilsins og sögunnar á eigin forsendum. Titillinn SKÚLPTÚR/ SKÚLPTÚR vísar í sýningu sem sett var upp á Kjarvalsstöðum undir sýningarstjórn Kristínar Guðnadóttur og Gunnars Kvaran, þáverandi safnstjóra, og bar hinn einfalda titil Skúlptúr / skúlptúr / skúlptúr. Þar sýndu á þriðja tug listamanna verk sín en sýningunni var ætlað að gefa yfirlit yfir höggmyndalist þess tíma. Sýningin opnaði sama ár og Gerðarsafn opnaði dyr sínar fyrir gestum í Kópavogi, eða árið 1994. Safnið er reist til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara (1928 – 1975). Um leið og dregnar eru saman tengingar við nýlega sýningarsögu og hreyfingar í samtímaskúlptúr er einnig leitast við að undirstrika vægi Gerðar Helgadóttur og framlag hennar til íslenskrar höggmyndalistar.