Skólaheimsóknir í menningarhúsin

18.11.2015

Tæplega þrjúhundruð 6. bekkjar nemendur úr Kópavogi hafa komið í heimsókn í Gerðarsafn í tengslum við sameiginlegt verkefni menningarhúsa Kópavogs sem hefur staðið yfir undanfarnar 2 vikur. Litið var á sýningarnar sem standa nú yfir og falda fjársjóði í listaverkageymslunni. 

Menningarhúsin í Kópavogi bjóða upp á metnaðarfulla dagskrá fyrir nemendur bæjarins á öllum stigum grunnskóla í vetur. Þetta er umfangsmesta heimsóknarverkefni sem sett hefur verið saman í bænum og er samstarfsverkefni sjö ólíkra stofnana, sem allar eiga það sameiginlegt að hafa ýmislegt forvitnilegt og fræðandi fram að færa. Dagskráin felur í sér heimsókn á tvö til þrjú menningarhús í sömu ferð svo úr verður fjölbreytt menningardagskrá sem hentar hverjum og einum.

Næsta heimsóknarlota verður í lok janúar þegar Salurinn býður heim öllum fjórða bekkjar nemum í Kópavogi.

Börnin fá þar bæði skemmtun og fræðslu í einni og sömu dagskrá og upplifa jafnframt gleðina sem felst í því að koma í tónlistarhús bæjarins og hlusta á lifandi tónlistarflutning. 

Bókasafn Kópavogs tekur á móti níundu bekkingum í byrjun maí. Fjallað verður um eðli og tilgang bókasafna, nýjar bækur kynntar fyrir nemendum og  allir fá ókeypis skírteini að heimsókn lokinni. 

Við þökkum þeim sem komi í heimsókn í nóvember og hlökkum til næstu heimsókna. Skólum af öllum stigum er alltaf velkomið að koma í heimsókn í Gerðarsafn. Endilega bókið heimsókn með góðum fyrirvara á póstfangið gerdarsafn@kopavogur.is