Listamannaspjall með Baldri Geir Bragasyni

18.11.2015

Baldur Geir Bragason ræðir við gesti um einkasýningu sína í sýningarröðinni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR sunnudaginn 8. nóvember. 

Baldur Geir Bragason og Habby Osk leggja fram hugleiðingar um skúlptúrinn á samhliða einkasýningum. Verk þeirra eru ólík en hugsunin að baki þeim á margt sammerkt þar sem heimspekilegum vangaveltum um eðli, orsök og afleiðingu listaverksins er velt upp á yfirborðið. 

Spurningar um tilveru hlutanna er endurtekið stef í verkum Baldurs Geirs Bragasonar. Hann kallar fram einfaldar táknmyndir á borð við stól, ruslapoka eða tröppur en það er gjarnan efnisvalið sem snýr á vísunina um hlutverk þeirra. Verkið "Ruggustóll" (2007) reyndist vera leikur að hugmyndinni um málverk því verkið var þrívíður hlutur unninn einungis úr málningu, striga og blindramma. Í þessu tilviki er það listmunurinn sjálfur sem spyr um tilgang sinn. Í verkinu "I, II and III" (2015) sjáum við hefðbundna sýningarstöpla hlaðna smærri stöplum þar sem spurningum um inntak er varpað fram. Verkið þarf að horfast í augu við örlög sín en það birtist í kössum sem helst minna á líkkistur og bíða sýningarloka.

Baldur Geir Bragason (1976-) býr og starfar í Reykjavík. Hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og lauk framhaldsnámi frá skúlptúrdeild Kunsthochschule Berlin í Þýskalandi árið 2008. Baldur hefur verið starfandi myndlistarmaður frá útskrift og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og haldið einkasýningar í söfnum og í sýningarrýmum, mestmegnis á Íslandi. Meðal þeirra má nefna Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Árnesinga, Kling og Bang og Kunstschlager.

SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR er sýningaröð sem hefur það að markmiði að kanna stöðu skúlptúrsins sem miðils í íslenskri samtímalist. Hér er lögð áhersla á að veita frekari innsýn í hugðarefni listamanna þar sem hver og einn gengur að samtali miðilsins og sögunnar á eigin forsendum. Titillinn SKÚLPTÚR/ SKÚLPTÚR vísar í sýningu sem sett var upp á Kjarvalsstöðum undir sýningarstjórn Kristínar Guðnadóttur og Gunnars Kvaran, þáverandi safnstjóra, og bar hinn einfalda titil Skúlptúr / skúlptúr / skúlptúr. Þar sýndu á þriðja tug listamanna verk sín en sýningunni var ætlað að gefa yfirlit yfir höggmyndalist þess tíma. Sýningin opnaði sama ár og Gerðarsafn opnaði dyr sínar fyrir gestum í Kópavogi, eða árið 1994. Safnið er reist til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara (1928 – 1975). Um leið og dregnar eru saman tengingar við nýlega sýningarsögu og hreyfingar í samtímaskúlptúr er einnig leitast við að undirstrika vægi Gerðar Helgadóttur og framlag hennar til íslenskrar höggmyndalistar.