Verkefnastjóri

29.4.2015

Brynja Sveinsdóttir hefur verið ráðin í stöðu verkefnastjóra Gerðarsafns – Listasafns Kópavogs en starfið var auglýst laust til umsóknar í febrúar sl. Brynja var valin úr hópi 59 umsækjenda og uppfyllir mjög vel menntunar- og hæfniskröfur sem settar voru fram fyrir starfið. 

Brynja lauk alþjóðlegu meistaranámi í sýningarstjórnun þ.m.t. lögfræði og verkefnastjórnun við Stokkhólmsháskóla árið 2014, ásamt námskeiði í safn- og listkennslu frá sama skóla. Námið lagði áherslu á samþættun fræðilegrar og hagnýttrar þekkingar safnastarfs og þekkingu á lagalegum atriðum, s.s. höfundarétti og samningagerð. Brynja lauk einnig meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands árið 2011 en árið 2010 hlaut hún BA-gráðu í listfræði með heimspeki sem aukagrein við Háskóla Íslands.

Brynja starfaði sem verkefnastjóri sýninga og safnfræðslu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur sumarið 2014 og vinnur nú að eigin sýningarverkefni fyrir Ljósmyndasafnið sem opnar í maí 2015. Þar áður starfaði hún tímabundið hjá Moderna Musset í Stokkhólmi sem aðstoðarmaður sýningarstjóra í kjölfar starfsnáms hjá safninu. 

Við bjóðum Brynju hjartanlega velkomna.