Leiðsögn um sýningu Valgerðar Hafstað

13.2.2015

Næstkomandi sunnudag, 15. febrúar kl. 15:00 munu  Svava Björnsdóttir, myndlistarmaður og  Ingunn Hafstað, bróðurdóttir Valgerðar Hafstað (1930-2011)  leiða gesti um sýningu hennar Andvari sem stendur nú yfir í safninu.

Valgerður Hafstað nam myndlist í Reykjavík, Kaupmannahöfn og París, en þar lærði hún einnig mósaíkgerð ásamt málaralistinni. Í París bjó hún til ársins 1974 með eiginmanni sínum, André Énard myndlistarmanni, en þá settust þau að í New York þar sem þau stunduðu kennslu samhliða listmálun. 

Verkin á sýningunni spanna allan listamannsferil Valgerðar. Þau elstu eru geómetrískar abstraktmyndir frá 1953-55. Í byrjun sjöunda áratugarins leysast formin upp, en verk Valgerðar eru á mörkum þess hlutbundna og óhlutbundna. Oft á tíðum má greina óljóst landslagsmótíf eða húsaþyrpingar sem hún virðist hafa umbreytt á einn eða annan hátt. 

Valgerður hélt bæði einkasýningar og tók þátt í samsýningum hér á landi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Fyrsta myndlistarsýning Valgerðar var samsýning hennar og Gerðar Helgadóttur árið 1957 í Galerie La Rouge í París. Ári síðar hélt hún sína fyrstu einkasýningu í Listsalnum Ingólfsstræti. Einnig hélt hún einkasýningu í Gerðarsafni árið 2002 undir yfirskriftinni Yfirgrip.

Fylgstu með okkur


Opnunartími

Þriðjudaga - föstudaga 11.00 - 17.00
Laugardaga - sunnudaga 11.00 - 17.00

Lokað á mánudögum

Aðgangseyrir er 1000 kr.

Námsmenn 500 kr. Frítt fyrir börn og ungmenni yngri en 18 ára,
aldraða, öryrkja og félaga í SÍM, ICOM, FÍMK, FÍSOS gegn framvísun skírteinis.

Frítt á miðvikudögum