Leiðsögn - Hughrif

26.11.2014

Hólmfríður sýnir annars vegar pappírsverk frá fyrri hluta ferils síns, unnin með blandaðri eigin tækni og öll með vatnsuppleysanlegum vönduðum ljósekta litum. Hins vegar nýrri textílverk, ýmist handofin úr íslenskri ull eða silki, með einskeftu eða vaðmáli. Verk Hólmfríðar eru einföld og hrein en án allrar upphafningar eða alvarleika. Leikurinn liggur öllu heldur í skapandi afstöðu hennar til hins hversdagslega umhverfis. Hólmfríður lauk kennaraprófi frá Handíða- og myndlistaskólanum og vann að menntamálum allan sinn feril. Hún fékkst ávallt við eigin sköpun samhliða kennslustörfum og hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, aðallega utanlands. Hún sótti námskeið og lagði stund á starfsnám hér heima, í Danmörku og Bretlandi þar sem hún var félagi í British Crafts Centre (sem nú heitir Contemporary Applied Arts) og hafði náin tengsl við Royal College of Art. Hún lauk störfum sem prófessor við Kennaraháskóla Íslands og var sæmd fálkaorðu árið 2009 fyrir framlag sitt til listkennslu í íslensku skólakerfi. Í tilefni sýningarinnar er einnig gefin út bók sem dregur saman ágrip af verkum Hólmfríðar Árnadóttur þar sem listunnendur geta áttað sig betur á framlagi hennar til íslenskrar myndlistar. Inngang ritar Jón Proppé.

                                                                                                         
Viðburðurinn er liður í Aðventuhátíð í Kópavogi.
Nálgast má fulla dagskrá hér. (PDF skjal)       

Allir velkomnir og frítt inn.