Guðbjörg Kristjánsdóttir fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin

18.2.2014

Af því tilefni viljum við bjóða gestum að njóta leiðsagnar Guðbjargar um glæsilega sýningu á teiknibókinni um helgina. Boðið verður upp á tvær leiðsagnir á laugardag og á sunnudag kl. 14:00 og 15:00. Frítt verður inn á safnið alla helgina.

Ávarp Guðbjargar á athöfninni 30. desember

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson Virðulega samkoma Það er mikill heiður að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin og ég er afar þakklát fyrir að rit mitt um Íslensku teiknibókin hafi fengið þessa viðurkenningu. Það var líka upphefð að útgáfa bókarinnar á síðast liðnu ári skyldi vera liður í hátíðahöldum í tilefni 350 ára afmælis Árna Magnússonar. Íslenska teiknibókin er einstæð meðal handrita í safni Árna Magnússonar. Hún er eina fyrirmyndabókin frá miðöldum sem varðveist hefur á Norðurlöndum. Lengi hefur staðið til að gefa Teiknibókina út í vönduðu ljósprenti. Skriður komst á málið í fyrra þegar Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Útgáfufélagið Crymogea tóku höndum saman um gefa bókin út í tengslum við afmæli Árna eins og áður sagði. Þessum stofnunum færi ég mín bestu þakkir fyrir framtakið og ánægjulegt samstarf. Hugheilar þakkir fá einnig allir þeir sem á umliðnum árum liðsinntu mér við ritun bókarinnar með einum eða öðrum hætti. Teiknibókin, þetta einstæða og merka handrit, geymir safn fyrirmynda af kristilegum toga eftir fjóra listamenn. Fjölbreytt viðfangsefni Teiknibókar veita ómetanlega vitneskju um listsköpun hér á landi og færa heim sanninn um að hún hefur staðið með meiri blóma en varðveitt verk gefa ástæðu til að ætla. Nær engin dæmi eru um fyrirmyndir bókarinnar annars staðar í íslenskri miðaldamyndlist og óhætt að fullyrða hvergi sé samankomið efni á einum stað sem veiti jafn ríkulega innsýni í trúar- og kirkjulist hins kaþólska siðar á Íslandi. Hugmyndir þær og kenningar sem lesa má úr í myndunum má hins vegar finna víða í miðaldatextum sem sýnir að minnin hafa verið velþekkt hér á landi. Þessi samsvörun mynda og texta dýpkar og eykur skilning okkar á kristnum hugarheim miðalda hérlendis og birtir nýja sýn á íslenska trúarlist. Íslenska teiknibókin er í hópi þeirra þrjátíu og sex fyrirmyndabóka sem varðveist hafa í Vestur Evrópu og hefur því augljóslega alþjóðlega skírskotun og menningargildi vegna þess hversu miðaldateiknibækur eru fágætar. Það hefur staðið allri umfjöllun um Teiknibókina á alþjóðlegum fræðivettvangi fyrir þrifum að ekkert grundvallarrit er til um hana á ensku. Fræðileg útgáfa Teiknibókar mun vekja áhuga utan Íslands og teljast þýðingarmikil innlegg í alþjóðlega umræðu um fyrirmyndabækur á miðöldum. Enski texti handrits míns um Teiknibókina má nú heita fullsaminn en vinnu við yfirlestur og endanlegan frágang er ólokið. Íslensku bókmenntaverðlaunin eru ómetanlegt veganesti á lokasprettinum við ensku útgáfuna sem vonandi kemur út innan tíðar. Þessi virtu verðlaun eiga eftir greiða götu erlendu útgáfunnar á alla lund og reynast mikill styrkur. Ég þakka fyrir mig.