Næstu sýningar

Árleg sýning blaðaljósmyndarafélag Íslands 

Mynd ársins 2012

Veitt voru ljósmyndaverðlaun í sjö flokkum og tvö bestu myndskeið ársins 2012 voru einnig verðlaunuð. Samhliða fór fram veiting Blaðamannaverðlauna í fjórum flokkum. Á neðri hæð safnsins var Gestasýning Ljósmyndarafélagsins haldin. Að þessu sinni sýndi Þórir Guðmundsson myndir sem hann hefur tekið í ferðum sínum í alþjóðlegu hjálparstarfi á vegum Rauða kross Íslands. Sýningin ber heitið Á vettvangi vonar. Á henni voru myndir teknar á síðastliðnum sautján árum í Mið-Asíulýðveldum gömlu Sovétríkjanna, Kína, Bangladess, Víetnam, Norður-Kóreu, Malaví, Síerra Leone, Sómalíu, Haítí og víðar þar sem neyð af ýmsum toga hefur kallað á alþjóðlega hjálp. Myndirnar sýna bæði átakanlegan veruleika fólks í neyð og hvernig alþjóðleg aðstoð veitir von á ögurstund. Þetta er í nítjánda skipti sem sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands er haldin í Gerðarsafni og hefur hún jafnan verið ein fjölsóttasta sýning hvers árs á safninu. Í ár voru 133 myndir valdar á sýninguna úr tæplega 1000 sem bárust í forvalið.

Formáli sýningarskrár: Á sýningunni í ár eru 133 myndir og eru flokkarnir þeir sömu og undanfarin ár: Fréttir, íþróttir, portrett, tímarit, umhverfi, daglegt líf og myndaraðir. Veitt eru verðlaun fyrir bestu myndina í öllum flokkum og þar að auki er valin mynd ársins úr öllum innsendum myndum. Það voru tvær þriggja manna dómnefndir auk formanns dómnefndar sem fóru í gegnum þær tæplega 1000 myndir sem bárust í keppnina. Ákveðið var að brydda upp á þeirri nýjung að skipta flokkunum á þessar tvær dómnefndir og reyndist það mjög vel. Bjarni Eiríksson, Dagur Gunnarsson og Karl Petersson skipuðu dómnefndina sem fór í gegnum fréttamyndirnar, íþróttamyndirnar og myndraðirnar. Gísli Egill Hrafnsson, Haraldur Hannes Guðmundsson og Hörður Sveinsson sátu í dómnefndinni sem fór í gegnum tímaritamyndirnar, portrettin, daglegt líf og umhverfi. Sameiginlega völdu dómnefndirnar svo mynd ársins og hafði formaður dómnefndarinnar, Þorkell Þorkelsson, þar atkvæðarétt. Hann var þar að auki dómnefndunum innan handar við störfin. Flokkarnir fyrir myndskeiðin eru: Fréttamynd, daglegt líf, lífsbarátta, fagmennska, náttúruhamfarir og landslag. Veitt eru verðlaun fyrir tvö bestu myndskeiðin óháð flokkum. Þriggja manna dómnefnd fór í gegnum myndskeiðin sem bárust í ár. Hana skipuðu: Ingi R. Ingason framleiðandi og kvikmyndatökumaður, Sólveig Kr. Bergmann fréttamaður og Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður.