Næstu sýningar

Tónn í öldu

Helgi Þorgils Friðjónsson


Heim

Myndröðin Heim er unnin á krossviðarbúta sem gengu af þegar ég var að byggja mér vinnustofu á Kjallaksstöðum, Fellströnd. Ég var búinn að vinna mörg skyld verk í aðdragandanum, svo sem Grænland 1996,  Í fótspor Collingwood 1999, Dagbók  málverkamyndröð 2002–2003 og Skarð 2006.

Ég ákvað að vinna verkið báðum megin á krossviðarbútana. Annars vegar málaði ég  þá bústaði sem hafa veitt mér skjól um ævina, herbergi eftir herbergi, og hins vegar umhverfi þeirra. Með því að vinna hvern kubb í verkinu báðum megin, skúlptúrgerist hann, og þegar allar vistarverur og umhverfi eru sýnd saman, verður það eins og skógur, eða þyrping.

Þegar ég settist með málaradótið mitt á gólfið í herbergjunum, helltist yfir mig sérkennileg mynd minninga og gæjugatatilfinning. Ég var að einhverju leyti að gægjast inn í eigin fortíð og fortíð fólksins í kringum mig. En fortíðina sá ég  í gegnum slikju þeirra íbúa sem á eftir komu og himnu tímans. Á Höskuldsstöðum var greinilegt að fólkið sem keypti jörðina af Ingibjörgu og Guðbrandi, og tók við búskapnum, tengdist hippatímanum. Herbergin voru flest í skærum litum, appelsínugulum, rauðum og grænum, og engin tvö eins. Kannski voru nýju eigendurnir að leita upprunans í náttúrunni, eins og fylgdi tíðarandanum. Þau voru flutt í nýbyggingu uppi  á hólnum fyrir ofan gamla bæinn. Ef til vill var það þriðja kynslóð ábúenda. Gamla húsið var illa farið og bóndinn á bænum sagði að það væri hættulegt að fara þar inn, þegar ég bankaði og bað um leyfi.

Í sýslumannshúsinu í Búðardal bjuggu Pólverjar dagana sem ég kom þar með litina mína, og húsið á Hafurstöðum er að mestu aflagður sumarbústaður og ber nokkur merki um núning tímans. Þar var allt veggfóðrað með skrautlegu veggfóðri, einnig tímanna tákn, sem er byrjað að leysast upp á límingunum og upplitast. Auk þess sem að kubbarnir hafa tvær hliðar. Þá er sá mikilvægi möguleiki alltaf fyrir hendi í málverki að hafa mörg sjónhorn í einni mynd.

Vegir


Þarna fórum við um, fram og til baka. Pabbi benti í allar áttir, og sagði okkur frá atburðum sögutíma. Alls staðar voru sagnir af miklum örlögum, en náttúran var búin að jafna allt út. Við það bættust sögur af mönnum og málefnum í samtíma svo allt var eins og einn heimur. Við störðum út í bláinn og sáum bara inn í hug okkar. Var það ekki núll punkturinn, upphaf alls?

Ég veit ekki hvort sýnin hafi verið á þann veg, sem uppgröftur í Skriðuklaustri laðar fram, en þar var opnun á annan veruleika en menn áttu von á. Ég nefni þá líka klaustrið í Görðum á Grænlandi, sem kom mér á óvart eftir langa siglingu með hrjóstrugri strönd, hlaðið úr stórgrýti með vatnsþró gerðri af verkfræðilegu skipulagi. Þar fannst bagall skorinn í birki, sem í huganum færði söguna í Snóksdal, því einhvern tíma gaf Daði í Snóksdal biskupi í Görðum útskorinn bagal.  

Skúlptúr

Síðasta daginn minn í Hollandi var ég á fullu að pakka inn leirskúlptúrum sem ég hafði unnið um veturinn í E.K.W.C. í St. Hertogenbosch 2011 - 2012. Þetta var í mars fyrir tæpu ári. Ég er í fyrsta skipti að sjá þá þegar þetta er skrifað, við uppsetningu sýningarinnar. Þetta er í þeim skilningi uppgröftur frá síðasta ári. Vegna leirsins og áferðarinnar er þetta fyrir mig eins og ferðalag í annan tíma, en líka hillingar við sjónarrönd í framtímanum. Ég kann vel við líkamlega hluta leirsins. Maður potar í hann og ýtir honum til eins og maður sé að drullumalla og festir hann svo í formið. Nánast eins og land verður til. Áður en ég fór til Hollands var ég að vinna málverk sem ég kalla vefi og vörður, og eru líka á þessari sýningu. Það má sjá birtingarmyndir úr hvoru tveggja, fram og til baka frá málverki til skúlptúrs. Þetta eru uppstillingar með lifandi dýrum, sem við þekkjum best úr umhverfi okkar og þau eru alls ekki goðsöguleg eða yfirnáttúruleg, t.d. hundar, hestar, fuglar og fiskar, stundum tengd saman með blómum og skordýrum, sem í eðli sínu er ekki sterk keðja, en huglæg, og hafa tengingu í hollenska kyrralífið og íslensku vörðuna.  

Bak er tileinkað frægu verki Matisse, Bak I–IV. Þetta er í raun skissa fyrir verk sem átti að vera í sömu stærð og skúlptúr Matisse. Ég tók ljósmyndir af bakinu á sjálfum mér áður en ég fór til Hollands, ásamt bökum Matisse, og vann átta tilbrigði þar sem ég lét mitt eigið bak renna saman við hans. Bakhliðin var svo spegilmynd, sem speglar ávexti og grænmeti og myndar þannig tvöfaldan gnægtagarð eða uppstillingu. Ég valdi Bak Matisse, vegna þess að mér finnst það góð myndlist og lýsa tíma í myndlistarsögunni, sem er erfitt að endurtaka í dag.

Önnur verk, eins og Póstkort og Heilagur Antoníus fyrir heimilislausa, urðu til á allt annan hátt. Póstkort er í raun sameining póstkorts sem ég fékk frá fjölskyldunni á Spáni og leirskúlptúrs. Ég þykist vita að póstkortið sé valið með það í huga að það tengist myndveröld minni. Ég tók því ákvörðun um að efnisgera kortið og færa þannig hugmynd annarra um verk mín yfir í þetta nýja verk. Við fjölskyldan hittumst á Spáni 2011 um jólin, og fórum í helgarferð til Lissabon. Þegar við keyrðum inn í borgina, blasti við okkur risastór stytta af Jesú Kristi. Daginn eftir fórum við í kastalann sem er yfir borginni í skoðunarferð. Þar var ungt og fallegt par að selja styttur af heilögum Antoníusi til að styrktar heimilislausum. Ég keypti þessa styttu á tíu evrur, vegna þess að þau áttu ekki pening til að skipta. Eiginlegt verð var átta evrur. Þetta er mín litla hönd sem er vart sýnileg í samanburði við risastóra minnismerkið um Krist en mætti vel hugsa sér að stækka.

Gullhaus með gulleggi I–II er tileinkun til Brancusi.

Verkið Alchemy er í raun endurgerð af skúlptúr sem ég gerði í pappírsleir 1979, og gaf listamanninum Douwe Jan Bakker. Ég veit ekki hvar hann er núna.  Douwe lést fyrir nokkrum árum. Hann hló sig máttlausan þegar hann handlék skúlptúrinn lófastóran og vélaði hann út úr mér. Ég sé Douwe ennþá fyrir mér hlæjandi.

Heimur

Ég hef tilhneigingu til að líta á verk mitt sem heim og vinnustofuna sem rannsóknarstofu eða tilvistarrými. Í þeim verkum þar sem ég leita í listasöguna er ég í raun að leita til að fara áfram. Að því leyti er hægt að draga fram líkingu við klaustrið á Skriðu og verkið Heim. Ég kynnti einu sinni þekktan listamann úr Arte Povera-hópnum fyrir listamanni úr íslenska SÚM-hópnum. Arte Povera mundi teljast vera ca. fimm árum eða meira á undan, sé maður að hugsa um slíka hluti. Sá íslenski sagði: „Já, hann. Ég hélt að hann væri löngu dauður.“  Þetta varð samstundis að spegilmynd í höfðinu á mér, og spurning var um hans eigið sjálfsmorð. Áhugaverð spurning. Þetta þýðir í raun útilokun, hagræðing, og val vegna þess að þeir þróast hvor í sína áttina. Stór hluti af þróun myndhugsunar minnar kemur í gegnum efnið. Hugleiðingarstarfið í efninu er svo samofið því að það leiðir fram spurningar sem liggja í loftinu og eru tengdar tilvist, lestri og hverslags rannsóknum, oft á hlutum sem erfitt er að setja fram öðruvísi en í list. Hugarástand í tíma getum við séð í list Blake og Kafka.

Til hvaða niðurstöðu leiðir fornleifarannsókn á 1984 eftir George Orwell? Hefur hún ekki þegar farið fram og verið dæmd sem vitleysa? Hefur hugur Orwells verið grafinn upp og framtíðarsýnin rannsökuð í gegnum þann uppgröft?

Van Gogh skrifar bróður sínum:

„Ég get ekki haldið aftur af mér og hef hræðilega þörf – trúarlega – til að fara út í nóttina að mála stjörnur.“

Helgi Þorgils Friðjónsson