Næstu sýningar

Sýningar 2012

Yfirlit

  • 21.01.2012 - 26.02.2012 Allir salir: SÆBORGIN; KYNJAVERUR OG ÓKINDUR. Laugardaginn 21. janúar var opnuð í Gerðarsafni sýningin Sæborgin: Kynjaverur og ókindur. Þema sýningarinnar byggir á nýútkominni bók Úlfhildar Dagsdóttur bókmenntafræðings, „Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika\\". Bókin fjallar um þá ímynd er tæknimenning og líftækni taka á sig í vitund almennings. Þema sýningarinnar eru sæborgir í íslenskri myndlist, eins og þær birtast í meðförum 20 íslenskra myndlistarmanna. Þeir eru: Anna Hallin, Birgir Snæbjörn, Birgisson, Bjarni Hinriksson, Davíð Örn Halldórsson, Erró, Finnbogi Pétursson, Gabríela Friðriksdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Helga Þórsdóttir, Hugleikur Dagsson, Inga María Brynjarsdóttir, Jóhann Ludwig Torfason, Jón Gunnar Árnason, Markmið, Olga Bergmann, Ólöf Nordal, Páll Thayer, Sara Björnsdóttir, Sigurður Örlygsson, Valgerður Guðlaugsdóttir. Í stuttu máli endurspegla verkin á sýningunni hrifningu okkar og ótta við vélina og nærveru hennar í menningu nútímans. Í þeim getur meðal annars að líta kynjaverur og ókindur orðnar til við samruna ólífrænna og lífrænna efna, verur sem eru í senn lifandi og vélrænar. Á sýningunni eru einnig myndbönd Bjarkar Guðmundsdóttur, gripir og bækur frá versluninni Nexus, Star Wars leikföng, ljósmyndir og myndbönd frá CCP auk stoðtækja frá Össuri. Sýningarstjórar Helgi Hjaltalín Eyjólfsson myndlistarmaður og Úlfhildur Dagsdóttir. Rithöfundurinn Sjón opnaði sýninguna.
  • 03.03.2012 - 07.04.2012 Allir salir: ÁRLEG SÝNING BLAÐALJÓSMYNDARAFÉLAG ÍSLANDS Á BESTU MYNDUM ÁRSINS 2011. Sýning var opnuð laugardaginn 3. mars. Á sýningunni eru að þessu sinni 72 myndir sem valdar hafa verið af dómnefnd úr um eitt þúsund innsendum myndum yfir 30 blaðaljósmyndara. Veitt verða verðlaun í átta flokkum, þ.e. fyrir Mynd ársins og fyrir bestu fréttamyndina, umhverfismyndina, portrett myndina, íþróttamyndina, daglegt líf og myndröð ársins. Þá verður einnig opnuð sýning á bestu myndskeiðum ársins 2011 og veitt tvenn verðlaun. Bók með bestu blaðaljósmyndum ársins 2011 kemur út við þetta tækifæri og verður kynnt á sýningunni. Þá opnar á neðri hæð safnsins á sama tíma sýning á myndum Haraldar Þórs Stefánssonar, sem hann nefnir Kæra Ísland. Við sama tækifæri verða veitt blaðamannaverðlaun í þremur flokkum, þ.e. Blaðamannaverðlaun ársins, rannsóknarblaðamennska ársins og umfjöllun ársins. Dómnefnd hefur tilnefnt þrjá í hverjum flokki.
  • 19.04.2012 - 26.05.2012 Allir salir: „Í TEIKNINGUNNI ER HUGSUNIN UM TEIKNINGUNA...“ Sumardaginn fyrsta, 19. apríl var sýning sem bar heitið „Í teikningunni er hugsunin um teikninguna …“ opnuð í Gerðarsafni. Sýningarstjórar voru Guðbjörg Kristjánsdóttir og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson. Á efri hæð safnsins voru teikningar eftir íslenska listamenn frá 20. og 21. öld, verk eftir Jóhannes S. Kjarval, Barböru Árnason, Gerði Helgadóttur, Valgerði Briem, Gunnlaug Scheving, Sverri Haraldsson , Birgi Andrésson, Guðjón Ketilsson, Guðnýju Guðmundsdóttur, Gústav Geir Bollason, Ragnheiði Jónsdóttur og Steingrím Eyfjörð. Árið 2009 færðu Páll Bergsson, Valgerður Bergsdóttir og Þorteinn Bergsson Gerðarsafni að gjöf teikningasafn móður sinnar Valgerðar Briem (1914-2002) sem telur um 1700 verk. Fyrir átti safnið teikningar svo hundruðum skipti eftir Barböru Árnason og Gerði Helgadóttur. Þá er í einkasafni Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur, sem varðveitt er í Gerðarsafni, stærsta safn Kjarvalsteikninga í einkaeigu hér á landi og teikningar eftir fleiri listamenn. Úr þessum safnakosti er sýningin samansett en umfram allt var það hið mikla og athyglisverða teikningasafn Valgerðar Briem sem hratt henni af stað. Mikið verk er óunnið við rannsóknir á íslenskri dráttlist. Markmið sýningarinnar var að stilla saman verkum um eldri og yngri listamanna í því skyni að varpa ljósi á vægi og stöðu teikningarinnar í íslenskri listsköpun fyrr og nú. Á neðri hæð safnsins voru úrval barnateikninga frá Myndlistaskóla Kópavogs, Myndlistarskóla Reykjavíkur og Waldorfskólanum í Lækjarbotnum. Sýningarstjóri var Guðrún Vera Hjartardóttir myndlistarmaður. Hún hafði kynnt sér hugmyndir Valgerðar Briem um myndlistarkennslu barna sem eru mjög nútímalegar þótt liðin sé tæp öld frá því að Valgerður setti þær fyrst fram. Valgerður lagði áherslu á gildi samhæfingar í menntun barna – einkum það sem hún kallaði mannvitsvíðsýni, það er samæfing huga, handar, hjarta, vilja, tilfinninga og vits. Í tengslum við sýninguna bauð Guðrún Vera upp á listasmiðju.
  • 09.06.2012 - 19.08.2012 Allir salir: SUMARIÐ '74 GERÐUR HELGADÓTTIR OG SVAVA BJÖRNSDÓTTIR. Sumarsýning Gerðarsafns, Sumarið ´74 Gerður Helgadóttir og Svava Björnsdóttir, var opnuð, laugardaginn 9. júní. Heiti hennar vísaði til sumarsins þegar Svava Björnsdóttir var hjá Gerði Helgadóttur myndhöggvara og glerlistamanni til aðstoðar í þorpinu Bazoches - síðasta dvalarstað hennar í Frakklandi. Þar hafði Gerður vinnustofu og litla íbúð og hlutverk Svövu var að aðstoða hana við gerð vinnuteikninga af veggmyndum fyrir Menntaskólann við Hamrahlíð. Dvölin hjá Gerði var Svövu lærdómsrík og mikil hvatning. Hún hóf listferil sinn um áratug síðar eftir að hafa stundað listnám í München. Á sýningunni er höggmyndum Gerðar og Svövu teflt saman en listakonurnar eru afar ólíkar bæði hvað efni og aðferðir varðar. Gerður notaði málm í verk sín sem hún logsauð úr járni eða bronsi. Þau eru oftast nær opin og létt, einkum hin loftkenndu, einlitu víraverk. Verk Svövu eru hins vegar úr pappír og steypt í mót. Þau eru fislétt en efnismikil og ýmist ein- eða marglita. Næm tilfinning hennar fyrir lit gæðir verkin miklu lífi. Verk á sýningunni eru valin eftir efni, formgerð og skyldleika. Þrátt fyrir að höggmyndir Gerðar og Svövu séu jafn ólíkar og raun ber vitni er ýmislegt sem tengir þær. Verk þeirra spila vel saman vegna þess að þau eiga það sameiginlegt að vera fínleg, létt og einkennast af næmri rýmistilfinningu. Sýningarstjórar voru Guðbjörg Kristjánsdóttir og Svava Björnsdóttir.
  • 01.09.2012 - 14.10.2012 Allir salir: Í HÚMINU, HEITT GLER Í 30 ÁR OG LIFANDI LETUR. Þrjár einkasýningar voru opnaðar í Gerðarsafni laugardaginn 1. september. Helgi Gíslason, myndhöggvarI sýnir þrívíð verk og teikningar, Sigrún Ó. Einarsdóttir og Søren S. Larsen glerlistaverk og Torfi Jónsson leturskrift og vatnslitamyndir.Helgi Gíslason myndhöggvari opnaði Í húminu sýningu á verkum sínum í Gerðarsafni. Þetta er tuttugasta einkasýning Helga, sem hóf sýningarferil sinn á listahátíð á Kjarvalsstöðum árið 1970. Á sýningunni í Gerðarsafni sýnir Helgi höggmyndir unnar í brons og járn. Einnig sýnir hann teikningar. Myndir hans fjalla um manninn í veruleikanum, sem hefur verið viðfangsefni hans um árabil. Að þessu sinni eru þrívíðar höggmyndir unnar í brons og járn, kjarni sýningarinnar. Þar er að finna verk sem er sprautað með bílalakki og annað sem er galvaniserað eins og hver önnur iðnaðarvara. Helgi er vel þekktur fyrir þrívíðar höggmyndir sínar, sem hafa verið sýndar víða hér á landi og erlendis. Hann á einnig verk í almenningsrýmum borgarinnar, gerði meðal annars altarið í Fossvogskirkju og málmdyr Seðlabanka Íslands. Snemma á ferli sínum haslaði Torfi Jónsson sér völl í leturskrift á erlendum vettvangi með þátttöku í ótal samsýningum og vann til verðlauna fyrir verk sín. Handbragð hans þykir framúrskarandi, öguð skrift hans er gædd fínlegri hrynjandi og ljóðrænni fegurð. Torfi hefur um áratugaskeið verið eftirsóttur kennari í kalligrafíu bæði hér heima og erlendis. Löngun til að mála með vatnslitum kviknaði út frá leturskriftinni enda augljós tengsl milli bleks og vatnslitar. Viðfangsefni Torfa í vatnslitum eru aðallega tvenns konar. Annars vegar eru stemmningar úr innra lífi, unnar í einveru. Þær eru óræðar í formi , málaðar með heitum og dulúðlegum litum á sérvalinn japanpappír. Landslagsmyndir Torfa eru hins vegar hefðbundnar í formi með sterkri skírskotun til staðhátta. Áfangastaðir listamannsins á ferðalögum hans um landið eru túlkaðir með loftkenndri og tærri birtu. Torfi Jónsson er í hópi fremstu bókahönnuða þjóðarinnar. Meðal verka hans á því sviði má nefna Passíusálma séra Hallgríms Péturssonar, listaverkabækur ASÍ og ýmsar ljóðabækur. Eftir nám í grafískri hönnun í Hamborg í Þýskalandi á sjötta áratugnum stofnaði Torfi hönnunarstofu í Reykjavík sem hann rak til ársins 1977. Auk þess kenndi hann hönnun árum saman við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og gegndi þar stöðu skólastjóra á árunum 1982-1986. Sýningin „Heitt gler í 30 ár“ er haldin í tilefni þess að Gler í Bergvík, hið fyrsta glerblástursverkstæði á Íslandi, fagnar nú 30 ára afmæli. Sýnd verða verk eftir eigendurna, glerlistarmennina Sigrúnu Einarsdóttir og Søren S.Larsen, sem þau hafa unnið á ferli sínum. Einnig verða til sýnis ný verk eftir Sigrúnu, svo og teikningar, skissur og ljósmyndir. Árið 1982 stofnuðu hjónin Søren og Sigrún glerblástursverkstæðið Gler í Bergvík. Þau ráku það saman til ársins 200,3 en þá lést Søren sviplega, 57 ára gamall. Sigrún er menntaður glerhönnuður frá Kunsthaandværkerskolen (nú Danmarks Designskole). En Sören sem leirlistarhönnuður frá sama skóla.Eftir fráfall Sørens hefur Sigrún rekið vinnustofuna ein og fengið til sín erlenda glerblásara til aðstoðar við heita glerið hluta úr ári hverju. Hún kennir námskeið í glerhönnun við Myndlistaskólann í Reykjavík og heldur auk þess fyrirlestra um listsköpun sína víða um heim.Verk eftir þau hjóninn má finna á fjölmörgum lista- og hönnunarsöfnum bæði hér heima og erlendis. Þau hafa líka ratað í einkasöfn þekktra listasafnara s.s. Elton John og Yoko Ono og eru í eigu nokkurra þjóðhöfðingja.

  • 27.10.2012 - 30.12.2012 Allir salir: MÆTING KRISTINN G. HARÐARSON. Snemma á ferli sínum tók Kristinn að rannsaka raunveruleikann og nánast umhverfi sitt. Rannsóknareðli listamannsins fær útrás í aragrúa vinnuteikninga þar sem hann kortleggur hversdagslega atburði og lýsir daglegu lífi. Samhliða heldur Kristinn dagbók og skráir eitt og annað tengt skissunum. Þessi samvinna tveggja miðla, tungumáls og myndar, eflir og dýpkar túlkun veruleikans. Kristinn beitir mismunandi tækni við gerð verka sinna: málar með olíu og vatnslitum, teiknar, ljósmyndar, býr til bækur og myndbönd og vinnur sum verkin með fleiri en einum miðli. Hér er um að ræða yfirlitssýningu á þáttum sem mest mark hafa sett á listsköpun Kristins síðastliðin tuttugu ár. Samhengi myndar og texta gengur eins og rauður þráður gegnum alla sýninguna. Oftar en ekki er textinn kveikjan að myndverkinu sem verður að eins konar myndlýsingu við hann. Frásagnir af raunverulegu lífi, umhverfi og atburðum eru kjarni verkanna. Með raunsærri framsetningu lýsir listamaðurinn nánasta umhverfi á tilteknum stað og ákveðinni stundu. Við fyrstu sýn virðast verkin vera myndir af heldur venjulegum aðstæðum og hversdagslegum atvikum en þegar betur er að gáð er umhverfið sem í þeim birtist iðulega uppfullt af hvers kyns furðum. Sýningunni má skipta í tvennt eftir viðfangsefnum. Í efri sölum safnsins er athyglinni beint að stöðum og ferðum. Ýmsir ferðabókahöfundar eru meðal áhrifavalda í þessum verkum. Einnig Ásgrímur Jónsson listmálari og bresku listamennirnir John Constable og Richard Long. Flest verkin innihalda ferðasögur í máli og myndum sem byggja á dagbókarfærslum listamannsins. Hér er þó ekki lýst neinum frægðarferðum. Fremur er um að ræða þægilegar gönguferðir um lágstemmdar slóðir. Á myndunum er fólk sjaldnast sjáanlegt. Finna má framhald tveggja ferðaverka á sýningunni á eftirfarandi vef: www.kgh.is. Verkin í neðri sölunum fjalla um fólk og mannlíf í formi teiknimyndasagna. Líkt og ferðamyndirnar eru umrædd verk unnin beint upp úr dagbókunum þar sem textinn gegnir miklu hlutverki. Þetta eru því „sannar” frásagnir af hversdagslegum atvikum en ekki skáldskapur. Sumt í dagbókunum verður áleitnara en annað. Kristinn er fundvís á atburði sem fáir veita athygli. Upplifanir höfundar á tilteknum stað endurspeglast í þessum verkum þar sem ríkir ljóðræn og óræð stemming.