Næstu sýningar

Sýningar 2011

Yfirlit

  • 15. janúar - 20. febrúar Allir salir: ÁSÝND LANDSINS: VATNIÐ, JÖRÐIN, HAFIÐ OG HIMININN. Laugardaginn 15. janúar var sýningin Ásýnd landsins: Vatnið, jörðin, hafið og himinninn opnuð í Listasafni Kópavogs-Gerðarsafni.Guðbergur Bergsson var sýningarstjóri. Á sýningunni eru málverk, vatnslitamyndir, teikningar og ljósmyndaverk eftir Daða Guðbjörnsson, Gunnlaug Scheving, Jóhannes S. Kjarval, Rúrí og Vilhjálm Þorberg Bergsson. Um það sem tengir þessi ólíku verk og listamenn segir Guðbergur meðal annars í sýningarskrá: „Sigling er veigamikið sjónrænt framsækið atriði í verkunum á þessari sýningu, og siglingin er einnig innsæi inn í víddirnar. Oft er ekki um beina siglingu að ræða heldur er hún falin, en hún getur líka tengst hlutum í veruleikanum, eins og skipum á sæ. Algengari er samt sigling forma í lausu lofti, sigling á flugi, hrein sigling sjávar. Sigling á jörð getur verið afmörkuð með rennsli hleðslu í grjótgarði. Á öðrum stöðum brýst fram sigling vatns í fossum. Sigling getur verið það sama eða hliðstæð flugi í andlegum skilningi. Þetta einkenni í íslenskri list er samt helst tengt því að sigla krappan sjó, siglingu á grunnsævi, sjómennsku, veiðum, miklu fremur því en úthafssiglingum beinlínis. Til að stunda þær er þörf á djörfum hugmyndum sem eiga kannski eftir að vakna af krafti í íslenskri myndlist.“
  • 26. febrúar - 10. apríl Allir salir: ÁRLEG BLAÐALJÓSMYNDARASÝNING. MYND ÁRSINS 2010. Sýningin var opnuð í Gerðarsafni í Kópavogi á laugardaginn 26. febrúar, en á sýningunni var að finna bestu blaða- og tímaritaljósmyndir og myndskeið ársins 2010. Veitt voru verðlaun fyrir bestu ljósmyndir ársins í átta flokkum og tvenn verðlaun fyrir myndskeið ársins. Við sama tækifæri var tilkynnt um blaðamannaverðlaun ársins 2010, en þau voruveitt í þremur flokkum. Þá opnaði á jarðhæð safnsins sýning Þorkels Þorkelssonar, ljósmyndara, sem nefndist Burma: Líf í fjötrum. Blaðaljósmyndarafélags Íslands (BLÍ) var stofnað 1976. Félagið starfar innan Blaðamannafélags Íslands. Sýning félagsins hefur verið haldin árlega síðan 1991 og frá árinu 1995 í Gerðarsafni og ætíð verið mjög fjölsótt og vinsæl af almenningi, enda þar að finna bestu blaðaljósmyndir hvers árs. Forval fyrir sýninguna Myndir Ársins 2010 fór fram helgina 15 - 16 janúar. Dómnefnd ljósmynda var skipuð fimm einstaklingum. Þeir fengu það erfiða hlutskipti að velja úr um 1300 innsendum ljósmyndum frá um 34 ljósmyndurum. Dómnefndin valdi svo 171 mynd á sýninguna í ár. Dómnefndina skipuðu þau Thomas Borberg myndritstjóri Politiken, Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndari, Soffía Rut Hallgrímsdóttir ljósmyndari, Þorkell Þorkelsson ljósmyndari, Anna María Sigurjónsdóttir ljósmyndari. Þrír aðilar sáu um að dæma lifandi myndir. Ingi R. Ingason framleiðandi/kvikmyndatökumaður, Sólveig Kr. Bergmann fréttakona Stöð 2, Þorsteinn J. Vilhjálmsson fjölmiðlungur. Flokkarnir í ár eru: fréttamynd ársins, íþróttamynd ársins, portrettmynd ársins, tímaritamynd ársins, umhverfismynd ársins, daglegt líf mynd ársins og myndröð ársins. Flokkum hjá kvikmyndatökumönnum var fjölgað um einn og var landslagflokki bætt við. Leiðsögn verður veitt um sýninguna á sunnudögum klukkan 15:00. Haraldur Guðjónsson sýningarstjóri sér um leiðsögnina Blaðamannaverðlaun Íslands verða nú veit í áttunda sinn. Samkvæmt reglugerð verðlaunanna eru þau veitt „ til viðurkenningar fyrir framúrskarandi frammistöðu og gott fordæmi í íslenskra." Verðlaunin greinast í þrennt og eru hverju sinni kennd við viðkomandi ár: „Rannsóknarblaðamennska ársins", „Besta umfjöllun ársins" og „Blaðamannaverðlaun ársins". Tilnefningarnar í ár eru þessar: Rannsóknarblaðamennska ársins 2010: Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir DV fyrir áleitna og vandaða umfjöllun um kynferðisbrotamál og forystu um skrif á þessu sviði, svo sem um biskupsmálið og önnur meint kynferðisbrot innan kirkju og trúfélaga. Stígur Helgason og Trausti Hafliðason Fréttablaðinu, fyrir greinargóða og upplýsandi umfjöllun um málefni meðferðarheimilisins Árbótar. Umfjöllunin varpaði nýju ljósi á umdeild vinnubrögð í stjórnmálum og stjórnsýslu. Þorbjörn Þórðarson Stöð 2, fyrir skilmerkilegan fréttaflutning af viðskipta- og fjármálum sem iðulega sviptu hulunni af framvindu meintra efnahagsbrotamála í aðdraganda og ekki síður eftir hrunið. Besta umfjöllun ársins 2010: Fréttastofa RÚV, Fréttastofa Stöðvar 2 og Ritstjórn Morgunblaðsins, fá sameiginlega tilnefningu fyrir umfangsmikla og vandaða en ólíka umfjöllun um eldgosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli. Magnús Halldórsson Viðskiptablaðinu, fyrir skýra og umfangsmikla umfjöllun um fjármál sveitarfélaga í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Sigríður H. Björnsdóttir og Þóra Arnórsdóttir (ritstj.) ásamt fréttamönnum fréttastofu RÚV og Kastljóss, fyrir sérstakan þátt með greinargóðri og viðamikilli umfjöllun um Rannsóknarskýrslu Alþingis daginn sem hún kom út. Dæmi um hröð, vönduð og fumlaus vinnubrögð. Blaðamannaverðlaun ársins 2010 Kristinn Hrafnsson RÚV/WikiLeaks, fyrir framúrskarandi úrvinnslu á myndbandi um þyrluárás í Bagdad sem hann vann ásamt Inga R. Ingasyni. Einnig fyrir störf hans sem fulltrúi WikiLeaks í samstarfi við helstu fjölmiðla heims við að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri. Pétur Blöndal Morgunblaðinu, fyrir fróðlegar og sérstaklega vel skrifaðar greinar um læknavísindi sem gáfu bæði innsýn í aðstæður sjúklings og lækna/heilbrigðisstarfsfólks. Ritstjórn DV fyrir Stjórnlagaþingsvef sinn þar sem lesendum var með nýstárlegum hætti og lifandi framsetningu auðveldað að kynna sér hinn mikla fjölda frambjóðenda.
  • 19. apríl - 15. júní Allir salir: BARBARA ÁRNASON ALDARMINNING. Í tilefni aldarafmælis listakonunnar Barböru Árnason var yfirlitssýning með verkum hennar opnuð í Gerðarsafni, Listasafni Kópavogs, 19 apríl.  Yfir 250 verk eftir listakonuna voru til sýnis auk fjölda myndskreyttra bóka, jóla- og tækifæriskorta, jólamerkja og fleira sem Barbara hefur skreytt. Mörg verkanna á sýningunni voru í einkaeigu og hafa aldrei áður komið fyrir almenningssjónir. Barbara Árnason er fædd og uppalin á Englandi og lauk þar listnámi. Hún var fengin til að myndskreyta endursagnir úr Íslendingasögum skömmu eftir að hún lauk námi og kveikti það í henni áhuga á landi og þjóð. Hún hélt til Íslands árið 1936 og reyndist það mikil örlagaferð í hennar lífi. Hún kynntist Magnúsi Á. Árnasyni, myndhöggvara og málara, og gengu þau í hjónaband 1937. Sama ár fluttist hún til Íslands. Á neðri hæð Gerðarsafns voru verk eftir Barböru sem sýndu hvernig henni tókst að ná undraverðum tökum á hinni ofurnákvæmu og vandasömu tækni tréstungunnar. Barbara lagði með tréstungunum grunninn að íslenskri þrykk list og telst meðal brautryðjenda á því sviði hér á landi. Í vestursal voru vatnslitamyndir eftir Barböru en þær eru m.a. vitnisburður um þær byggðir Íslands sem hún heimsótti ásamt eiginmanni sínum á árunum 1937 til 1975. Síðustu vatnslitamyndirnar málaði hún á Þingvöllum sumarið áður en hún lést. Þá málaði hún barnamyndir, sem urðu mjög eftirsóttar, sem og myndir af dýrum og villi- og stofublómum. Í austursal mátti meðal annars sjá verk sem Barbara vann úr lopa. Til þessara verka teljast bæði veggteppi og tískuvara. Lopaverk Barböru eru eitt af því frumlegasta sem lagt hefur verið af mörkum til íslenskrar vefjarlistar á síðustu öld. Hún sýndi þau margsinnis í París og seldi vel.
  • 25. júní - 7. júlí Efri hæð: GÓÐIR ÍSLENDINGAR. Laugardaginn 25. júní var opnuð í Gerðarsafni sýning þeirra Finnboga Péturssonar og Árna Páls Jóhannssonar. Yfirskrift sýningarinnar var Góðir Íslendingar og táknmynd hennar gömul, hlaðin fjárrétt. Í innsetningu Árna Páls í austursal safnsins mátti sjá ljósmyndir af sauðfé á veggjunum og rekaviðardrumba í gólfinu; í vestursalnum hafði Finnbogi komið fyrir öryggismyndavélum í hring um áhorfendur og tilheyrandi búnaði til að sýna úr þeim myndir og spila hljóð. Sýningin fjallaði á fínlegan hátt um samfélagsleg málefni og sjálfsmynd þjóðarinnar. Ávarpið „Góðir Íslendingar" er svo margétin tugga að við gefum henni varla gaum. Þó ættu þessi orð einmitt að vekja okkur til umhugsunar: Hvern er verið að ávarpa og í hvaða tilgangi? Finnbogi Pétursson fæddist 1959 og nam við Myndlista- og handíðaskólann og síðar við Jan van Eyck-listaakademíuna í Hollandi. Finnbogi er oft kallaður hljóðlistamaður en verk hans tengja ólíkar listgreinar og nálganir: Hugmyndalist, tónlist, vídeólist, flúxuslist, innsetningar og umhverfislist. Finnbogi var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001. Árni Páll Jóhannsson er fæddur í Stykkishólmi árið 1950, lauk meistaranámi í ljósmyndun og kenndi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands um tólf ára skeið. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í Gallerí SÚM árið 1975. Hann er einnig þekktur fyrir leikmynda- og sýningahönnun sína, hefur hannað tugi leikmynda fyrir leikhús og kvikmyndir og hlaut meðal annars heiðursverðlaun Eddunnar árið 2008 fyrir störf sín. 
  • 25. júní - 2. október Neðri hæð: GERÐUR HELGADÓTTR. Gerður Helgadóttir var fjölhæf og afkastamikil listakona. Hún stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík og síðan í Flórens og París, þar sem hún bjó mestan sinn starfsaldur. Með geómetrískum járnverkum á 6. áratugnum ávann Gerður sér sess sem frumkvöðull þrívíðrar abstraktlistar hér á landi. Síðan gerði hún myndir eingöngu úr hárfínum járnvírum sem mynda teikningu í rýminu. Mikil breyting varð á list Gerðar þegar hún fór að logsjóða úr bronsi. Form verkanna urðu óregluleg og lífræn og sjá má í þeim skyldleika við ljóðrænu abstraktlistina. Eftir ferð til Egyptalands árið 1966 má greina áhrif frá fornri egypskri list í verkum hennar. Um og upp úr 1970 taka við verk unnin úr gifsi, leir og jafnvel steinsteypu sem einkennast af einföldum hringformum og hreyfingu í ýmsum tilbrigðum. Mörg þessara verka eru hugsuð sem frummyndir að öðrum stærri. Þótt Gerður liti fyrst og fremst á sig sem myndhöggvara var hún einnig virtur glerlistamaður, bæði hér heima og erlendis. Steindir gluggar eftir hana prýða nokkrar kirkjur hér á landi. Þekktastir eru gluggar í Skálholtsdómkirkju og Kópavogskirkju. Einnig eru gluggar eftir Gerði í nokkrum kirkjum í Þýskalandi. Þekktasta verk Gerðar hér á landi er án efa stóra mósaíkmyndin frá árinu 1973 á Tollhúsinu í Hafnarstræti í Reykjavík.
  • 13. ágúst - 2. október Efri hæð: SUMARSÝNINGAR 2011. Í vestursal: Úr Einkasafni Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur. Tíu ár eru liðin síðan einkasafn Þorvaldar og Ingibjargar var fengið Gerðarsafni til vörslu. Þorvaldur var einn af mestu athafnamönnum landsins á síðustu öld, brautryðjandi í matvælaiðnaði og hótel- og veitingarekstri. Þau hjónin Þorvaldur og Ingibjörg voru einstaklega samhent og eignuðust um dagana stærsta listaverkasafn landsins. Sýningin Lífshlaup sem Listasafn Kópavogs efndi til aldamótaárið 2000 var aðdragandi þess að einkasafnið var vistað í Gerðarsafni. Nafn sýningarinnar var sótt í sjálft Lífhlaupið, málverkin á veggjunum í vinnustofu Jóhannesar S. Kjarvals í Austurstræti 12 sem Þorvaldur festi kaup á. Nafngiftinni var einnig ætlað að vísar til lífshlaups þessara miklu listunnenda sem söfnuðu um þúsund listaverkum og prýddu með þeim umhverfi sitt, hvort heldur var eigið heimili eða starfsvettvang. Það var jafnan hugsjón þeirra Ingibjargar og Þorvaldar að safn þeirra væri til sýnis fyrir almenning. Á sumarsýningu Gerðarsafns að þessu sinni hefur verið lögð áhersla á verk uppáhaldsmálara hjónanna, Ásgrím Jónsson, Jóhannes S. Kjarval og Jón Stefánsson. Ljóðlistin mótaði öðru fremur sýn þessara frumherja íslenskrar málaralistar þó með ólíkum hætti væri. Ljóðrænn andi einkennir verk Ásgríms og Kjarvals en af stórbrotnum formunum í verkum Jóns stafar mikilúðleiki. Aðrir málarar sem eiga verk á sýningunni eru Þórarinn B. Þorláksson, Kristín Jónsdóttir, Eyjólfur J. Eyfells og Gísli Jónsson. Í verkum þeirra er að finna sama milda og rómantíska andblæinn og í verkum Ásgríms. Einkasafn Þorvaldar og Ingibjargar er einstæður minnisvarði um ástríðufullan áhuga hjónanna á myndlist. Það er mikill heiður fyrir Gerðarsafn að fá að varðveita þetta merka safn og sýna. Í austursal: Úr Safneign. Listasafns Kópavogs-Gerðarsafns Á tíu ára afmæli Kópavogsbæjar árið 1965 var samþykkt að stofna Lista- og menningarsjóð og verja til hans árlega ákveðinni prósentu af útsvarstekjum bæjarins. Þetta framtak var til mikillar fyrirmyndar og upp frá þessu hófst skipuleg söfnun listaverka hjá bænum. Abstraktverk sem keypt voru á fyrstu söfnunarárunum eru meðal þess best í safneign Gerðarsafns. Verk Karls Kvaran, Guðmundu Andrésdóttur og Eyborgar Guðmundsdóttur hér á sýningunni eru dæmi um það. Um miðjan sjöunda áratuginn fór að draga úr áhrifum abstraktlistarinnar. Myndmálið sem stefnan hafði innleitt hélt engu að síður velli. Fjölmargir íslenskir listamenn hafa sýnt í Gerðarsafni eftir að það tók til starfa árið 1994. Sumir sýnendur hafa í verkum sínum haldið áfram að rækta og þróa abstrakt myndmálið með athyglisverðum hætti sem sjá má í verkum Björn Birnis, Erlu Þórarinsdóttur, Tuma Magnússonar, Guðrúnar Einarsdóttur, Bjarna Sigurbjörnssonar og Ransu (Jón Bergmanns Kjartansonar). Verk Magnúsar Kjartanssonar byggja líka á grunni abstraktlistarinnar en inn í hann fellir Magnús ýmis tákn og myndir úr nánasta umhverfi sínu og sameinar þannig abstrakt, ný-raunsæi og popplist í listsköpun sinni. Verk Birgis Andréssonar, Eitt ár í íslenskum litum, byggir á hugmyndalist. Þótt það kunni að hjóma undarlega á verkið samt þegar allt kemur til alls það sammerkt með málverkunum í Vestursalnum að túlka stemningar í íslensku landslagi. En í stað ótal litbrigða eldri meistaranna notar Birgir einn lit til að túlka árstíðirnar. Þessi litanotkun tengir þetta verk hans abstraktlistinni. Nöfn árstíðanna og litanúmer eru hluti af verki Birgis. Það var fyrst sett upp á sýningu í Suður Frakklandi þar sem árstíðirnar fjórar voru málaðar beint – hver á einn vegg – í stórum sýningarsal og umluktu þannig áhorfandann. Verkið hér á sýningunni er útgáfa af þessu umrædda verki.
  • 08.10. - 13.11.2011 Efri salir: ÁRATUGUR AF TÍSKU. Afmælissýning Fatahönnunarfélags Íslands Fatahönnunarfélag Íslands í samstarfi við Listasafn Kópavogs-Gerðarsafn opnar afmælissýningu félagsins, Áratugur af tísku þann 8. október. Fatahönnunarfélag Íslands var stofnað þann 19. september 2001 og fagnar því 10 ára afmæli á þessum fallegu haustdögum. Þetta eru merkileg tímamót hjá þessu unga félagi enda hefur vöxtur fatahönnunar hérlendis verið með eindæmum á þessum fyrsta áratug nýrrar aldar. Við opnun flytur Linda Björg Árnadóttir fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands ávarp og afhendir Indriðaverðlaunin, sem nú eru veitt í fyrsta sinn fyrir árin 2009-2011. Framvegis verða verðlaunin veitt annað hvert ár þeim fatahönnuði sem þykir hafa skarað fram úr. Verðlaunin eru kennd við klæðskerann Indriða Guðmundsson. Sem var þekktur fyrir gæði og fagmennsku í starfi. Sýningarstjóri er Jóna Hlíf Halldórsdóttir myndlistarmaður. Sýn hennar einkennist af skemmtilegri, sjónrænni og einfaldri frásögn þar sem fatnaður og fylgihlutir fá að njóta sín. Þátttakendur í sýningunni eru Áróra, Ásta Creative Clothes, Farmers Market, Birna, Lúka Art & Design, Skaparinn, Shadow Creatures, ELM, Kurl Projekt, Eva María Árnadóttir, Eygló, Go with Jan, MUNDI, Gust, Guðmundur Jörundsson, Andersen & Lauth, Hanna Felting, Ziska, Ígló, KronKron, IBA-The Indian in Me, Jbj design, Kalda, REY, Forynja, Lykkjufall, Sonja Bent, Path of Love, Sunbird, Thelma, Spaksmannsspjarir, Eight of Hearts, Vera, Sruli Recht. Viðburðir verða allar helgar meðan á sýningunni stendur. Boðið verður upp á leiðsögn, sýningastjóraspjall og fyrirlestra. Einnig verður í boði stefnumót við hönnuði, þar sem almenningi gefst kostur á að hitta hönnuðinn, spjalla og fá innsýn í hans/hennar heim og fræðast um fatnaðinn.
  • 19. 11.11-8.1.12 Efri salir: Endemis (Ó)sýn: Útgáfusýning í tilefni 2.tölublaðs Endemis

    Endemi er tímarit um íslenska samtímalist, með áherslu á samtímalist íslenskra kvenna. Markmið tímaritsins er að brúa bilið milli almennings og myndlistar, og rétta af kynjaójafnvægi í lista- og menningarumfjöllun á Íslandi. Blaðið er að stórum hluta gallerí og flest verkin hafa sjaldan eða aldrei verið til sýnis áður. Sýningarstjórar Ragnhildur Jóhannsdóttir og Selma Hreggviðsdóttir. Sýnendur eru: Anna Líndal  Ásta Ólafsdóttir,  Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir,  Eva Ísleifsdóttir,  Margrét H. Blöndal, Katrín Sigurðardóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Elín Hansdóttir,  Þorvaldur Jónsson,  Sara Björnsdóttir,  Gjörningaklúbburinn,  Greg Barrett,  Birgir Snæbjörn Birgisson,  Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir. Nafn sýningarinnar, Endemis(Ó)sýn, er fengið að láni frá Hlyni Helgasyni sem skrifar inngangsgrein blaðsins. Orðið (ó)sýn vísar til hins kvenlæga og  sértæka sem fellur gjarnan utan hins hefðbundna ramma. Með þessari framsetningu beinir hann augum lesenda að því að sú „sýn“ sem liggur til grundvallar sýn-inga á oftar en ekki rætur sínar í ríkjandi samfélagsviðmiðum og -gildum sem eru, og hafa alla tíð verið, karllæg. Erfitt er að skilgreina hvað flokkast sem karllægt og kvenlægt þegar kemur að myndlist. Margar konur hafa haslað sér völl innan hins ákvarðandi, greinandi og afgerandi ramma „sýnarinnar“ á meðan ófáir karlmenn upplifa sig á jaðri hinnar sértæku kvenlægu (ó)sýnar. Til að undirstrika þessa (ó)sýn er öðrum hugtökum, eða réttar sagt hlutföllum, snúið á hvolf. Í blaðinu sem og á sýningunni eru 30% sýnenda karlmenn og 70% konur. En hlutfallið 30/70 (karlmönnum í vil) hefur um langa hríð virst órjúfanlegur múr þegar kemur að sýningum og umfjöllun um myndlist. Leiðsögn var alla sunnudaga á meðan á sýningu stóð.