Næstu sýningar

Sýningar 2010

Yfirlit

  • 24. nóvember 2009 - 28. febrúar Allir salir: GERÐARLEGT Í GERÐARSAFNI. Verk Gerðar Helgadóttur. Nýir og eldri munir í safnbúð. Neðri hæð: Sýningin TIL ÞESS ER LEIKURINN GERÐUR frá barnadeildum Myndlistarskóla Kópavogs frá 12. febrúar. Sýningin Gerðarlegt í Gerðarsafni er tíu ára yfirlit nýsköpunarverkefnis innan safnsins, þar sem var hönnun hluta eftir verkum Gerðar Helgadóttur fyrir safnbúð. Ellefu hönnuðir eiga sinn þátt í þessu tíu ára ferli, margir helstu hönnuðir okkar. Um mitt síðasta ár var afráðið, í tengslum við atvinnuátak á vegum Kópavogsbæjar, að taka upp þráðinn á ný við gerð minjagripa og fjórir hönnuðir voru ráðnir til að vinna tillögur að hlutum til framleiðslu. Megináhersla sýningarinnar Gerðarlegt í Gerðarsafni er því á skissur, frumger'ðir að hönnunargripum og þá hluti þeirra, sem settir hafa verið í framleiðslu. Á Safnanótt þann 12. febrúar var opnuð á neðri hæð Gerðarsafns sýning á nemendavinnu allra barna- og unglingadeilda frá Myndlistarskóla Kópavogs. Sýningin var unnin undir nafninu Til þess er leikurinn Gerður og er afrakstur nokkurra vikna vinnu nemenda. Í kennslu hafa verk Gerðar Helgadóttur verið grunnur að leik og hugmyndavinnu og nemendur að vild haft verkin til hliðsjónar eða spunnið sjálfstætt í vinnuferlinu. Athyglisvert er að sjá á hvern hátt einkenni verka Gerðar skila sér í formi, lit og rýmisþáttum þeirra vinnu sem börnin eru að fást við. Sýningin Til þess er leikurinn Gerður er kennsluverkefni og sem slíkt forvitnileg viðbót við hönnunarsýninguna Gerðarlegt í Gerðarsafni.
  • 6. mars - 2. maí Austur-og vestursalur: ÁRLEG LJÓSMYNDASÝNING BLAÐALJÓSMYNDARAFÉLAGS ÍSLANDS. MYND ÁRSINS 2009. Neðri hæð: Þorvaldur Örn Kristmundsson Sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands, Myndir ársins 2009, var opnuð 6. mars  í Gerðarsafni. Á sýningunni voru rúmlega 150 blaðaljósmyndir valdar inn á sýninguna, auk þess sem verðlaun voru veitt fyrir bestu myndirnar í 11 flokkum. Þeir voru: - Mynd ársins 2009: Rakel Ósk Sigurðardóttir; Fréttamynd ársins: Gunnar Gunnarsson; Íþróttamynd ársins: Anton Brink Hansen; Portrettmynd ársins: Heiða Helgadóttir; Tímaritamynd ársins: Bragi þór Jósefsson; Umhverfismynd ársins: Brynjar Gunnarsson; Daglegt líf mynd ársins: Valgarður Gíslason; Þjóðlegasta mynd ársins: Helgi Bjarnason; Skoplegasta mynd ársins: Haraldur Jónsson; Myndröð ársins: Rakel Ósk Sigurðardóttir. Einnig var veitt viðurkenning fyrir Besta myndskeið ársins 2009, sem Guðmundur Bergkvist hlaut. Bókin Myndir ársins 2009 með bestu blaðaljósmyndum ársins 2009 kom út við þetta tækifæri og er til sölu í safnbúð. Á neðri hæð safnsins er ljósmyndasýning Þorvaldar Arnar Kristmundssonar, sem hann nefnir: Náttúra er vörumerki/Nature is Brand. Við opnunina voru blaðamannaverðlaun ársins veitt í fyrsta sinn í Gerðarsafni. Þórður Snær Júlíusson hlaut verðlaun fyrir Rannsóknnarblaðamennsku; Lóa Dís Aldísardóttir fyrir bestu Umfjöllun ársins og Jóhann Hauksson fékk Blaðamannaverðlaun ársins 2009.
  • 8. maí - 20. júní Allir salir: KVIKA. Yfirlitssýning á verkum Hafsteins Austmanns. Á Kópavogsdögum laugardaginn 8. maí var opnuð í Gerðarsafni yfirlitssýning á verkum Hafsteins Austmanns í tilefni af 75 ára afmæli hans. Hafsteinn Austmann hefur fyrir löngu skapað sér nafn sem einn af vönduðustu listmálurum sinnar kynslóðar. Hann er fæduur á Vopnafirði 1934, en ólst að mestu upp í Reykjavík. Kornungur ákvað Hafsteinn að helga sig myndlistinni og eftir nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík og Handíða- og myndlistaskóla Íslands dvaldi hann í París 1954-55 og sótti þá tíma í Akademié de la Grande Chaumiére, m.a. hjá myndhöggvaranum Zadkine. Hafsteinn heillaðist snemma af franskri abstraktlist og var m.a. boðið að sýna á hinni alþjóðlegu Realités Nouvelles- sýningu, aðeins tvítugum að aldri. Heimkominn tók Hafsteinn þátt í öllum helstu sýningum íslenskra myndlistarmanna og skar sig ævinlega úr fyrir fágaðar abstraktmyndir sínar, bæði olíu- og vatnslitamyndir. Til þessa hefur hann haldið um 30 einkasýningar og tekið þátt í miklum fjölda samsýninga um allan heim. Sömuleiðis er verk Hafsteins að finna í öllum helstu listasöfnum Norðurlanda. verk hans hafa ennfremur hlotið ýmsar viðurkenningar, m.a. alþjóðlegu Windsor & Newton verðlaunin fyrir vatnslitamyndir. Hafsteinn hefur einnig hlotið tvenn verðlaun fyrir útilistaverk og gert veggmynd fyrir Borgarspítalann. Í tengslum við sýninguna var gefin út vönduð bók: Kvika: Hafsetinn Austmann, Myndverk 1950-2010, sem Aðalsteinn Ingólfsson hefur tekið saman.
  • 3. júlí - 29. ágúst Allir salir: GERÐUR OG GURDJEFF. LÍFSHLAUP KJARVALS OG FLEIRI ÚRVALS VERK Í EINKASAFNI ÞORVALDAR OG INGIBJARGAR. Á sýningunni Lífshlaup Kjarvals og fleiri úrvalsverk í einkasafni Þorvaldar og Ingibjargar eru verk úr einkasafni Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur, sem er í vörslu Gerðarsafns. Lífshlaup Kjarvals , dýrmætasta verkið í safninu, er sýnt í Vestursal. Árið 1933 hélt Jóhannes S. Kjarval sýningu í vinnustofu sinni, herbergi undir súð í Austurstræti 12. Aðeins eitt verk var á sýningunni sem telja má fyrsta heildstæða rýmisverkið í íslenskri myndlistarsögu, málað með svörtum lit beint á hvíta veggi vinnustofunnar. Það var og er í raun samfelld innsetning með teikningu. Gólf og gólflistar voru ámáluð ferningum og tíglum og pensilstrokur huldu ofna. Síðar var þetta rýmisverk nefnt Lífshlaupið. Í Austursal eru nokkur úrvalsverk úr safni Þorvaldar og Ingibjargar eftir þau Ásgrím Jónsson, Gísla Jónsson, Guðmund Thorsteinsson (Mugg), Gunnlaug Scheving, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Kristínu Jónsdóttur, Louisu Matthíasdóttur, Þórarinn B. Þorláksson. Á neðri hæð safnsins er sýningin Gerður og Gurdjieff. Verk Gerðar Helgadóttur á sýningunni eru valin með það í huga að sýna tengsl Gerðar við kenningakerfi armenska dulspekingsins G. I. Gurdjieffs. Árið 1953 tók Gerður að iðka hugrækt undir handleiðslu listamannsins Madame Jeanne de Salzmann sem verið haf'ði nemandi Gurdjieff. Áhrifin birtast meðal annars í notkun óevklíðskrar rúmfræði, en víraverk Gerðar frá árunum 1954 - 58 eru byggð upp með eilítilli ósamhverfu. Hreyfing í rými gegndi líka veigamiklu hlutverki í hugræktinni hjá Mme de Salzmann. Hvirfillinn var algengur í hugleiðslunni og þess sér víða stað í verkum Gerðar. Hann tengist líka stjörnufræði, sem Gerður grúskaði í.
  • 4. september - 10. október Allir salir: 9 - SAMSÝNING UNGRA MYNDLISTARMANNA Í GERÐARSAFNI. Listamenn sýningarinnar eru: Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bjarki Bragason, Etienne de France, Gunndís Finnbogadóttir, Helga Björg Gylfadóttir, Logi Bjarnason, Páll Haukur Björnsson, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Styrmir Guðmundsson. Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir. Á sýningunni eru verk níu ólíkra myndlistarmanna, átta íslenskra og eins erlends, sem búsettur er á Íslandi. Það sem tengir listamennina er einkum það, að þeir hafa útskrifast úr myndlistarnámi á síðastliðnum fjórum árum. Þeir nálgast veruleikann á mismunandi hátt í verkum sínum en eru uppteknir af persónulegri- og samfélagslegri pólitík, pólitískum rétthöfum, -valdhöfum, -rétthugsun, -ranghugsun, -hagsmunum og siðferði. Lagt var upp með að notast hvorki við vinnutitil né leggja til grundvallar ákveðinn hugmyndalegan grunn heldur var vinnuferli hvers listamanns látið ráða ferð og verkunum leyft að þróast út frá upphaflegum hugmyndum, í samræðu fram að og raunar fram yfir sýningaropnun. Það þýddi að tekin var sú áhætta að sýningin myndaði mögulega ekki hugmyndalega einingu heldur yxi í ýmsar áttir og fléttaðist saman á víxl. Leitandi. Lögð var áhersla á að sýningarskrá yrði unnin með sýningunni og að rödd hennar yrði einskonar sneiðmynd úr báðum heilahvelum hvers listamanns á fyrstu skrefum í listferlinum. Listamennirnir voru beðnir um að velja sér viðmælendur, sem þeim þætti áhugavert og krefjandi að eiga í samræðu við um verk sín, afstöðu til listarinnar og samfélagslegt hlutverk sitt sem listamenn. Áhersla var lögð á að framlag hvers listamanns endurspeglaði persónuleika hans og orðræðu án íhlutunar ritstjóra eða tilraunar til samræmingar á milli þeirra innbyrðis. Listamennirnir níu hafa stundað listnám í sérlega áleitinni samræðu um samfélagið á tvennum tímum í íslenskum samtíma, tímanum fyrir og eftir bankahrun, fyrir og eftir síðupplýsingu, þegar þjóðgersemarnar hafa verið einkavæddar, falsaðar og seldar mörgum sinnum. Nýja Ísland varð gamalt aftur, ímyndir, meinsemdir og sjálfsmynd þjóðarinnar ræddar í sellum um land allt. Listamennirnir taka afstöðu til alls þessa og taka sér hver sína stöðu og hlutverk. Þeir bregðast við pólitísku landslagi, leggja sitt af mörkum til gagnrýninnar umræðu í samfélaginu og grandskoða mikilvægi hugtaksins gildi þegar flest gildi hafa verið gjaldfelld. Verk listamannanna bera þess merki að listin bæði endurtekur sig og endurnýjar á víxl, tekur inn áhrif allsstaðar frá, jótrar á og skilar út áburði sem fellur í misfrjóan jarðveg. Hvað upp vex eða hvenær er ekki hægt að spá um fyrirfram. Listin er í senn persónuleg og almenn, listamenn vita í raun aldrei í hvernig jarðveg verk þeirra falla en leiðarljósið er innsæið, að bera traust til eigin hvata, áhuga og athafna. Birta Guðjónsdóttir, sýningarstjóri
  • 30. október - 30. desember Efri hæð: VEIÐIMENN NORÐURSINS Neðri hæð: ANDLIT ALDANNA. Ljósmyndir Ragnar Axelsson Á fyrri sýningunni eru ljósmyndir úr ferðum Ragnars Axelssonar um norðurslóðir. Á síðustu þremur áratugum hefur hann heimsótt veiðisamfélög nyrst í Grænlandi og Norður- Kanada og skrásett með ljósmyndum sínum lífið þar. Á ferðalögum sínum festi Ragnar á filmu líf í þorpum á mörkum hins byggilega heims, forna lifnaðarhætti og aldagamla veiðimenningu Inúíta. Í myndunum er fylgst með löngum veiðiferðum út á óravíðáttu ísbreiðunnar þar sem veiðmennirnir virðast örsmáir. Þarna draga þeir björg í bú við einar erfiðustu aðstæður sem um getur á jarðríki. Þessar mögnuðu ljósmyndir Ragnars af heimskautasvæðunum koma nú fyrir augu almennings í fyrsta sinn. Nú á dögum beinist athygli heimsins í vaxandi mæli að norðurslóðum. Hvergi eru ummerki um komandi loftslagsbreytingar sýnilegri og hafa þær haft þar meiri áhrif á líf fólks en annars staðar á byggðu bóli. Hlýnandi loftslag og bráðnun íss ógna nú hefðbundnum lifnaðarháttum veiðimannanna. Þeim fækkar óðum og samfélögum þeirra hnignar. Samhliða sýnungunni kom út bókin Veiðimenn norðursins með ljósmyndum Ragnars og texta eftir Mark Nuttall, einn helsta sérfræðing heims um málefni Inúíta og norðurslóða og prófessor við háskólann í Alberta í Kanada. Útgefandi er Crymogea. Sýningin Andlit aldanna á neðri hæðinni fjallar einnig um loftslagsbreytingar. Á henni eru ljósmyndir af ísnum í lóninu á Breiðamerkursandi. Risavaxin klakastykki sem urðu að ís fyrir 800 árum bráðna nú og í ísnum birtast fortíðarsvipir, bæði góðir og illir, og ýmis önnur óræð form. Þessi andlit sem mótuðust í iðrum jökulbreiðunnar á Sturlungaöld leysast nú upp og hverfa. Á sýningunni er líka að finna myndbandsverk eftir Ragnar sem fjallar um bráðnun jöklanna. Ragnar Axelsson hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir ljósmyndir sínar. Hann er heiðurslistamaður Kópavogs 2010.