Næstu sýningar

Sýningar 2009

Yfirlit

  • 7. febrúar - 8. mars Allir salir:  ÞVERSKURÐUR - 35 ÁRA AFMÆLI TEXTÍLFÉLAGSINS. Þessi þrískipta og fjölbreytta sýning spannar ríflega 60 ár í textílsögunni. Á henni getur að líta nýleg verk félagskvenna og verk heiðursfélaga, þeirra Ásgerðar Ester Búadóttur, Guðrúnar Marinósdóttur, Huldu Jósefsdóttur, Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá og Sigríðar Halldórsdóttur. Einnig eru á neðri hæð sýnd verk fjögurra kvenna sem á síðstu öld vörðuðu vegferð íslenskrar þráðlistar inn í nútímann, þeirra Júlíönu Sveinsdóttur, Vigdísar Kristjánsdóttur, Barböru Árnason og uppdrættir úr teikningasafni Valgerðar Briem. Textílfélagið fagnar 35 ára afmæli á ári sem markast af endurmati á ýmsum gildum, íslenska ullin á allra höndum og ánægjan við að skapa, nýta og njóta mjög almenn. Eftir áralanga naumhyggju þyrstir fólk í liti, áferð og fjölbreytni. Þráðlistin - textíllinn, sem var okkur lífsnauðsyn fyrr á öldum er tjáningarmáti þeirra myndlistarkvenna sem sýndu verk sín í Gerðarsafni á þessum tímamótum Textílfélagsins. Það er staðfesting þess að handverkið lifir með okkur, við tjáum okkur á ólíkan og fjölbreyttan máta, sköpunarþörfin knýr okkur áfram og mótar verkin.
  • 14. mars- 3. maí Austur- og Vestursalur: ÁRLEG LJÓSMYNDASÝNING BLAÐALJÓSMYNDARAFÉLAGS ÍSLANDS. MYND ÁRSINS 2008. Neðri hæð: JIM SMART Í 30 ÁR. Í fyrsta skipti tóku fjórir kvikmyndatökumenn þátt í sýningunni og kynntu verk sín á sjónvarpsskjá. Á neðri hæð var úrval ljósmynda eftir Jim Smart. Hann er fæddur í Suffolk á Englandi 1949 og fluttist til Íslands 1975. Hann starfaði sem ljósmyndari á Vikunni og ýmsum dagblöðum, s. s. Dagblaðinu, Helgarpóstinum, Þjóðviljanum, Pressunni og Morgunblaðinu. Eftir Jim liggur gríðarlegt magn ljósmynda. Þekktastur er hann fyrir portrettmyndir sínar. Einkenni þeirra eru sterkar andstæður ljóss og skugga sem laða fram persónuleika fyrirmyndarinnar á tilþrifamikinn hátt. Sýningin var styrkt af Ljósmyndasafni Reykjavíkur.
  • 9. maí - 21. júní Allir salir MÝTUR OG TÁKNMYNDIR. Málverkasýning Baltazars. Baltasar var kjörinn heiðurslistamaður Kópavogs 2007. Á Kópavogsdögum 2009 var opnuð sýning í Gerðarsafni á verkum hans frá undanförnum tveimur árum. Sýningin var tvískipt. Þrjátíu málverk á efri hæð safnsins sækja myndefni í guði og goðsagnir frá mismunandi menningarheimum. Þar birtast hlið við hlið heiðnar mýtur og kristnar helgisagnir sem sóttar eru í egypska, grísk-rómverska og norræna goðafræði, Gyðingdóm og kristni. Þessar myndir koma nú í fyrsta sinn fyrir sjónir almennings. Á neðri hæð safnsins eru sýndar sjö stórar myndir sem byggja á Sjö orðum Krists á krossinum og sýndar voru á listahátíð í Hallgrímskirkju 2008. Þeim myndum fylgir texti séra Hallgríms Péturssonar úr Passíusálmunum. Í túlkun sinni leggur Baltasar áherslu á hið mannlega eðli Krists, fyrirgefningu hans og uppsprettu vonar.
  • 9. júlí - 23. ágúst Allir salir: VALTÝR OG GERÐUR. Á sýningunni eru verk frá ýmsum skeiðum á ferli tveggja frumkvöðla nútímalistar á Íslandi, Gerðar Helgadóttur og Valtýs Péturssonar. Sýningunni var einkum ætlað að vera vettvangur samræðna á milli listamannanna tveggja og varpa ljósi á forvitnilega snertifleti verkanna, það sem ólíkt er með þeim og jafnframt það sem tengir þau. Ágæt vinátta tókst með þeim Gerði og Valtý þegar þau stunduðu bæði myndlistarnám í Flórens á Ítalíu árið 1949. Á árunum upp úr 1950 skipuðu þau sér síðan í forystusveit framsækinna myndlistarmanna hérlendis með afstraktverkum sem þau sýndu með nokkurra mánaða millibili, Valtýr gvass myndir í Listvinasalnum en Gerður skúlptúra úr járni í Listamannaskálanum. Sum þessara verka eru á sýningunni í Gerðarsafni.
  • 28. ágúst - 27. september Vestursalur: DYR DRAUMANNA. Austursalur, neðri hæð: MANDALA. Sýning finnsku listakonunnar Elena Schuvaloff-Maijala Dyr draumanna fjallar um forn minni. Elena líkir lífi sínu við dyr sem lokist hafi upp fyrir henni hvað eftir annað. Hún kveðst í málverkum sínum feta sig aftur í gegnum líf sitt og uppgötva sjálfa sig með eins konar sálgreiningu í gegnum litina. Forn minni og draumar eru iðulega viðfangsefni í verkum listakonunnar. Gullslegin hásæti, veldistákn og skartgripir birtast á myndfletinum í óræðu rými en í verk sín notar listakonan olíuliti ásamt gull- og silfurlaufum. Í nýjustu verkum sínum sækir Elena innblástur til náttúrunnar. Elena Maijala hefur haldið fjölmargar sýningar í heimalandi sínu Finnlandi og víða annars staðar bæði austan hafs og vestan. Sýningin Mandala er um hringformið og kristalinn. Hringformið ásamt ferningi og þríhyrningi mynda helstu frumformin. Flestir kannast við mynd Leonardo da Vinci af manni með útrétta arma og leggi inn í ferningi og hring. Leonardo gerði myndina fyrir kennara sinn Lucio Pacioli til að myndlýsa bók hans: Um hin helgu fjöll - De Divina Proportione . Í þessari teikningu Leonardo er falin staðsetning mannsins í tilverunni - hringurinn og hornin fjögur. Það var svissneski sálfræðingurinn Carl Gustav Jung sem helst rannsakaði og bar saman myndheima í menningarkimum heimsins og kom með kenninguna um erkitýpuna eða það sammanlega. Hann sá að sömu grunnþættirnir eru í öllum trúarbrögðum. Einn grunnþátturinn er hjólið, hringurinn og skipting hans. Á sýningunni eru dæmi um hvernig listamennirnir nota þessi form ýmist á markvissan eða óljósan og leitandi hátt í verkum sínum. Af yngri kynslóð eru Steingrímur Eyfjörð, Erla Þórarinsdóttir, Bjarni H. Þórarinsson og Goddur og af eldri kynslóð Gerður Helgadóttir, Guðmunda Andrésdóttir og Vilhjálmur Bergsson. Guðmundur Oddur Magnússon sýningarstjóri. Styttur texti.
  • 2. október - 15. nóvember Allir salir: Þrjár sýningar á írskri menningarhátíð. KÚRRAKKAR, VEGGSPJÖLD OG OPINBERUN Tvær sýningar koma frá Þjóðminjasafni Írlands. Á annarri Kúrrakkar - Skinnbátar frá vesturströnd Írlands er sérstök tegund báta sem enn í dag eru notaðir við vesturströnd Írlands. Þessir ævafornu bátar eru á margan hátt frábrugðnir öðrum bátum. Í fornbókmenntum Íra er að finna margar frásagnir af ferðalögum á skinnbátum. Þekktust er sigling heilags Brendans líklega frá 9. öld e. Kr. Talið er að frásögnin lýsi ferð til Norður-Ameríku. Líklegt er að Papar, hinir írsku einsetumenn, sem hér voru fyrir þegar norrænir menn námu land hafi siglt hingað út á slíkum skinnbátum. Á sýningunni er saga skinnbátanna rakin með myndum og texta á spjöldum. Á hinni Aftur heim til Írlands eru veggspjöld frá þriðja fjórðungi síðustu aldar. Þeim var ætlað að laða gesti á þekkta írska ferðamannastaði og leggja áherslu á þægilegan og nútímalegan ferðamáta. Þau sýna írskar staðalímyndir svo sem fagurt fjallalandslag, hús með stráþökum, rústir, hringturna og keltneska krossa. Veggspjöldin höfðu varanleg áhrif á ímynd Írlands og eru fyrirtaksdæmi um hágæðalist sem aðgengileg er almenningi. Jafnframt bregða veggspjöldin ágætu ljósi á þróun grafískrar listar og auglýsingagerðar. Opinberun er heitið á þriðju sýningunni og kemur hún frá Listasafni Írlands í Dyflinni. Sýningin var unnin í samvinnu við Graphic Studio í Dublin. Grafík verkstæðið bauð tuttugu og níu þekktum listamönnum af ýmsu þjóðerni að gera verk sem skyldu sækja innblástur í listaverkaeign Listasafns Írlands. Að öðru leyti hafði hver listamaður frjálsar hendur varðandi þau atriði sem hann kaus að vinna út frá í viðkomandi verki. Þrykkmyndir listamannanna opinberuðu nýja og óvænta sýn á eitt og annað í þessum gömlu verkum. Þannig voru ýmis atriði í þeim, sem áður voru hulin eða lítill gaumur gefinn, gerð sýnileg og færð til samtímans.
  • 24. nóvember 2009 - 28. febrúar Allir salir:  GERÐARLEG Í GERÐARSAFNI. Verk Gerðar Helgadóttur. Nýir og eldri munir í safnbúð. Sýning frá barnadeildum Myndlistarskóla Kópavogs frá 12. febrúar. Sýningin Gerðarlegt í Gerðarsafni, er tíu ára yfirlit nýsköpunarverkefnis innan safnsins, þar sem var hönnun hluta eftir verkum Gerðar Helgadóttur fyrir safnbúð. Ellefu hönnuðir eiga sinn þátt í þessu tíu ára ferli, margir helstu hönnuðir okkar. Um mitt ár var afráðið, í tengslum við atvinnuátak á vegum Kópavogsbæjar, að taka upp þráðinn á ný við gerð minjagripa og fjórir hönnuðir voru ráðnir til að vinna tillögur að hlutum til framleiðslu. Megináhersla sýningarinnar Gerðarlegt í Gerðarsafni er því á skissur, frumgerðir að hönnunargripum og þá hluti þeirra, sem settir hafa verið í framleiðslu. Á Safnanótt þann 12. febrúar var opnuð á neðri hæð Gerðarsafns sýning á nemendavinnu allra barna- og unglingadeilda Myndlistarskóla Kópavogs. Sýningin er unnin undir nafninu Til þess er leikurinn Gerður og er afrakstur nokkurra vikna vinnu nemenda. Í kennslu hafa verk Gerðar Helgadóttur verið grunnur að leik og hugmyndavinnu og nemendur að vild haft verkin til hliðsjónar eða spunnið sjálfstætt í vinnuferlinu. Athyglisvert er að sjá á hvern hátt einkenni verka Gerðar skila sér í formi, lit og rýmisþáttum þeirrar vinnu sem börnin eru að fást við. Sýningin Til þess er leikurinn Gerður er kennsLuverkefni og sem slíkt forvitnileg viðbót við hönnunarsýninguna Gerðarlegt í Gerðarsafni.