Næstu sýningar

Sýningar 2008

Yfirlit

  • 19. janúar - 17. febrúar Allir salir: ÉG HEF MJÖG EINFALDAN SMEKK. ÉG VEL AÐEINS ÞAÐ BESTA. Verk úr safni Sævars Karls Ólasonar og Erlu Þórarinsdóttur. Sýning á verkum úr eigu hjónanna Sævars Karls Ólasonar og Erlu Þórarinsdóttur. Verkunum hafa þau safnað undanfarin 40 ár og kennir ýmissa grasa í safninu. Þar er til dæmis að finna úrval verka eftir Gunnlaug Blöndal, Kristján Davíðsson og marga af þekktustu samtímalistamönnum þjóðarinnar auk áhugaverðra verka eftir erlenda listamenn. Í þeim flokki eru til dæmis sjaldgæfar litógrafíur eftir Salvador Dalí frá árinu 1971 þar sem hann myndgerir hugmyndir sínar um klæðnað spjátrunga framtíðarinnar.
  • 23. febrúar - 16. mars Austur- og vestursalur: ÁRLEG LJÓSMYNDASÝNING BLAÐALJÓSMYNDARAFÉLAGS ÍSLANDS. MYND ÁRSINS 2007.  Neðri hæð: Páll Stefánsson Mynd ársins 2007. Páll Stefánsson: XXVx2 Ljósmyndir Á efri hæð safnsins var Hin árlega ljósmyndasýning og verðlaunaveiting Blaðaljósmyndarafélags Íslands. Á neðri hæð var sýning Páls Stefánssonar ljósmyndara: XXVx2 Ljósmyndir
  • 29. mars - 27. apríl Allir salir: GERÐUR - 80 ÁR. Afmælissýning á verkum Gerðar Helgadóttur Sýningin var haldin í tilefni þess að Gerður hefði orðið 80 ára í apríl en hún lést árið 1975, aðeins 47 ára að aldri. Á sýningunnivar áhugavert og fjölbreytt úrval af verkum Gerðar; glerlist og höggmyndir af ýmsu tagi, bæði þekkt verk og önnur sem ekki hafa komið fyrir almennings sjónir áður. Þá var hluti af fáséðari verkum Gerðar einnig sýndur, til dæmis skissur og forteikningar af ýmsum verkum sem ekki var hrint í framkvæmd, svo sem hugmyndir að altaristöflu fyrir Kópavogskirkju. Einnig voru sýndar forteikningar Gerðar að hinum merku gluggum Skálholtskirkju en Gerður varð hlutskörpust í samkeppni sem haldin var um gerð þeirra.
  • 17. maí - 8. júní Allir salir: TVÆR OG EIN. Þrjár ólíkar sýningar sem mynda eina sterka heild . Það eru Kristín Geirsdóttir málari, Ólöf Einarsdóttir textíllistamaður og Kristín Garðarsdóttir leirlistamaður sem sýna verk sín. Listakonurnar þrjár hafa þekkst um árabil. Við fyrstu sýn vinna þær verk sín í ólíka miðla, en þó er ýmsa snertifleti að finna þegar betur er að gáð. Fegurð og snerting eru mikilvægur hluti af verkum þeirra þriggja og í handbragðinu kemur fram að allar þrjár eru í sterkum tengslum við gamlar hefðir en hafa engu að síður unnið úr straumum og stefnum í samtímanum, hver á sinn hátt.
  • 18. júní – 10. ágúst Allir salir: CARNAGIE ART AWARD 2008. Verðlaunasýning á norrænni samtímalist Áhugi á norrænum listamönnum hefur vaxið jafnframt því sem listaheimurinn hefur orðið alþjóðlegri. Þeir listamanna sem valdir hafa verið og verk þeirra eru dæmi um kraftinn og margbreytileikann í norrænni samtímalist. Öll verkin eru gerð á síðustu tveimur árum og endurspegla vel fjölbreytni í tækni og efnisvali. Í ár eiga tveir öflugir íslenskir listamenn verk á sýningunni. Í myndum Þórdísar Aðalsteinsdóttur kynnist áhorfandinn stílfærðum fígúrum með einkennilegar, aflangar hendur og fætur á einlitum að því er virðist óendanlegum grunni. Myndirnar lýsa mannlegum tilfinningum og hugarástandi fremur en persónum. Þær eru við fyrstu sýn gáskafullar en í þeim er oftast óhugnanlegur undirtónn. Þór Vigfússon vinnur myndir sínar, sem eru á mörkum málverks og skúlptúrlistar, af hnitmiðaðri nákvæmni. Hann hefur lengi unnið með gler, plexigler og spegla sem gefa litnum sérstaka áferð og speglar umhverfið og áhorfandann. Fyrstu verðlaun Carnegie Art Award hlaut Svíinn Torsten Anderson. Aðrir verðlaunahafar voru dönsku listamennirnir Jesper Just og John Körner ásamt Nathalie Djurberg frá Svíþjóð sem hlaut styrkinn, sem ætlaður er listamanni af yngri kynslóð.
  • 22. ágúst - 21. september Allir salir: SJÓNDEILDAHINGIR. Samsýning Bjarna Sigurbjörnssonar, Kristins E. Hrafnssonar og Svövu Björnsdóttur þar sem hinum ólíku heimum listamannanna var teflt saman. Í stuttri grein sem Gunnar J. Árnason listheimspekingur skrifar í tilefni sýningarinnar segir meðal annars: „Í verkum Svövu hafa fléttast saman þræðir sem rekja má aftur til abstrakt málverksins, skúlptúrlistar minimalismans þar sem samspil forma, sem skapar dýpt innan myndflatar, fær áþreifanlega og efnislega vídd í lituðum pappamassa og gifsi. Verk Bjarna eiga ættir að rekja til color-field og mónókróma málverksins, og tilrauna til að afhjúpa yfirdrifna lotningu fyrir pensilskrift listamannsins sem nokkurs konar guðlega leiðsögn, með því að afsala sér fullkominni stjórn á málverkinu og láta tilviljanakennd efnaferli ráða ferðinni. Verk Kristins spretta upp úr tilraunum minimalsima og konseptlistar til að endurskoða hugmyndir okkar um samband listar og þess staðar sem það staðsetur sig í, með því að hverfa frá þeirri skúlptúrlist sem verður til í vinnustofunni og er færð út undir bert loft í tilbúið umhverfi, og í átt að skúlptúrlist sem reynir að opna upp nýja sýn á opin rými, staði og áttir.“
  • 4. október - 16. nóvember Allir salir: EKVADOR AÐ FORNU OG NÝJU.  Suður-amerískri menningarhátíð Sýningin er tvíþætt. Annars vegar eru til sýnis listmunir og málverk frá því um 3.500 f.Kr. til okkar daga. Í þessum hluta sýningarinnar er úrval fornra leirmuna, skínandi gullsmíði og merkir kirkjugripir frá nýlendutímabilinu ásamt mögnuðum málverkum eins þekktasta myndlistarmanns Suður-Ameríku , Oswaldo Guayasamín (1919-1999). Hins vegar eru sýnd veggteppi og málverk frumbyggja frá Amazón-svæðinu og úr Andesfjöllum, máluð á skinn.
  • 22. nóvember 2008 - 12. janúar 2009 Allir salir: ÚR SAFNEIGN. NÝ AÐFÖNG. LÍFSHLAUPIÐ OG VATNSLITAMYNDIR. Sýning á verkum úr safneign. Um er að ræða nýlega skúlptúra og málverk eftir Önnu Hallin, Gabríelu Friðriksdóttur, Hallgrím Helgason, Katrínu Sigurðardóttur, Olgu Bergman, JBK Ransu, Steingrím Eyfjörð og Valgerði Guðlaugsdóttur. Einnig var til sýnis Lífshlaup Jóhannesar Kjarvals úr safni Þorvaldar Guðmundssonar. Þetta viðamikla fantasíukennda verk er um margt lykillinn að hugmyndaheimi Kjarvals og birtast minnin í verkinu í ólíkum myndum allt fram á síðustu starfsár hans. Á neðri hæð voru valdar vatnslitamyndir í eigu safnsins og úr safni Þorvaldar Guðmundssonar.