Næstu sýningar

Sýningar 2007

Yfirlit

  • 14. janúar - 12. febrúar Efri hæð: GULLPENSILLINN - INDIGO. Málarahópurinn Gullpensillinn opnar sýninguna Indigo í Gerðarsafni á laugardag. Þar eru sýnd ný málverk sem eiga það sameiginlegt að tengjast hinum sérstaka lit sem kallaður er indigó-blár. Í Gullpenslinum eru nokkrir af þekktustu málurum þjóðarinnar, þar á meðal Helgi Þorgils Friðjónsson, Kristín Gunnlaugsdóttir og Daði Guðbjörnsson. Málverkin eru af ólíku tagi en mynda mjög áhugaverð heild þar sem hinn einstaki blái litur er í öndvegi, hvort sem er í myndum Sigríðar Ólafsdóttur af föngum á Litla Hrauni, fíngerðum plöntumyndum Eggerts Péturssona eða myndasyrpu Jóhanns Ludwigs Torfasonar, Leikföngum fyrir Indigo börn.
  • 17. febrúar – 18. mars Allir salir: ÁRLEG LJÓSMYNDASÝNING BLAÐALJÓSMYNDARAFÉLAGS ÍSLANDS. MYND ÁRSINS 2006.  Sýning Blaðaljósmyndarafélagsins hefur verið með vinsælustu sýningum landsins undanfarin ár og er engin ástæða til að ætla annað í ár. Á neðri hæð safnsins er samsýning nokkurra ljósmyndara með myndum frá Kárahnjúkum. Þessir ljósmyndarar eru þeir Ragnar Axelsson, Páll Stefánsson, Þorvaldur Örn Kristmundsson, Kristinn Ingvarsson, Brynjar Gauti Sveinsson og Vilhelm Gunnarsson. Eins og undanfarin tvö ár verður bókin MYNDIR ÁRSINS gefin út samhliða sýningunni. Bókin er góð heimild um fréttir síðasta árs, en einnig um menningu og daglegt líf. Það er Edda útgáfa sem gefur út bókina og er hún styrkt af Menningarsjóði Blaðamannafélagsins. www.pressphoto.is
  • 29. mars– 29. apríl Allir salir: VÍSANIR - SAMTÍNAHÖNNUN FRÁ PARÍS. Á sýningunni eru 40 ný verk af fjölbreyttu tagi eftir nokkra af fremstu hönnuðum Frakka, til dæmis Philippe Starck, Laurence Brabant og Matali Crasset. Sýningin nefnist 'Vísanir í samtímahönnun í París' og er sýningarstjóri Cedric Morriset, sem vakið hefur athygli í listaheiminum fyrir nýstárlegt og framsækið sýningarhald undanfarin misseri. Hugmyndin að baki sýningunni er að leggja áherslu á það einkenni franskrar hönnunar að nota vísanir og draga þannig fram mest spennandi hliðar hennar. Þannig sést hvernig einn hönnuður fær lánað frá öðrum og skapar þannig kraftmikið samspil og nýtt samhengi hlutanna. Hlutverk sýningarstjórans Morriset er mjög mikilvægt en hann stillir verkunum upp í samhengi við ákveðin lykilhugtök sem raðað er í stafrófsröð. Á þann hátt verður til skemmtilega kerfisbundin mynd af síðustu fimm árum í franskri hönnun, vísunum hennar og uppruna og úrvinnslu áleitinna hugmynda og þekktra forma. Sýningin er haldin í tengslum við Porqois Pas? - franskt vor á Íslandi.
  • 5. maí – 26. maí Allir salir: GERÐUR HELGADÓTTIR, BARBARA OG MAGNÚS Á. ÁRNASON Á KÓPAVOGSDÖGUM. Steindir gluggar eftir Gerði Helgadóttur úr þýskri kirkju, barnateikningar af heimsþekktri fegurðardrottningu eftir Barböru Árnason og fleiri athyglisverð verk Í tilefni Kópavogsdaga hefur verið sett upp sýning i Gerðarsafni á athyglisverðum verkum í eigu safnins eftir Gerði Helgadóttur, Barböru Árnason og Magnús Á. Árnason. Þar á meðal eru merkilegir steindir gluggar eftir Gerði Helgadóttur sem bjargað var úr kirkju í Dusseldorf áður en hún var rifin fyrr á þessu ári. Á sýningunni eru einnig áður ósýnd verk Gerðar sem vinir og velunnarar hennar hafa gefið safninu auk verka sem safnið hefur keypt, til dæmis einstakt veggverk sem gert var fyrir kaffihús í París 1957.? Einnig eru sýnd verk eftir Barböru og Magnús Á. Árnason sem gefin hafa verið til safnsins.
  • 2. júní – 24. júní Allir salir: THE PROVINCIALISTS/ÚTKJÁLKAMENN. The Provincialists eða Útkjálkamenn er hópur fjögurra norænna myndlistarmanna. Þeir vinna með ýmsum aðferðum og útfrá ólíkum hugmyndum en eiga það sameiginlegt að búa og starfa utan þeirra stórborga þar sem meginstefnur myndlistar eru ákvarðaðar og myndlistinni er komið á framfæri. Ane Lan (Noregur) Astri Luihn (Færeyjar) Madeleine Park (Svíþjóð) Þórdís Alda Sigurðardóttir (Ísland)
  • 17. ágúst – 16. september Allir salir: NÝTT ÚRVAL ÚR SAFNI ÞORVALDAR Í SÍLD OG FISK FYRIR AUGU ALMENNINGS Í GERÐARSAFNI.  Á sýningunni gefur að líta verk helstu meistara íslenskrar myndlistar á 20. öld, Jóhannesar S. Kjarval, Þórarins B. Þorlákssonar, Jóns Stefánssonar, Louisu Matthíasdóttur, Gerðar Helgadóttur og fleiri. Á sýningunni gefst því gott tækifæri til að sjá nokkur af helstu meistaraverkunum úr þessu merkasta einkasafni landsins í bland við fáséðari gersemar. Meðal þeirra má nefna verk frá fyrri hluta ferils Kjarvals, skúlptúra eftir Gerði Helgadóttur, Einar Jónsson, Sigurjón Ólafsson og fleiri. Þá er á sýningunni leyndardómsfullt skúlptúrverk eftir Kjarval - listilega máluð brennivínsflaska! Ekki kunnugt um annað verk af þessu tagi eftir þennan mikla meistara. Þorvaldur Guðmundsson, sem ávallt var kenndur við Síld og fisk, var einn af þekktustu athafnamönnum 20. aldar. Hann var brautryðjandi í lagmetisiðnaði, kjötvinnslu og hótel- og veitingarekstri. Ingibjörg eiginkona hans tók virkan þátt í starfi manns síns og voru bæði miklir fagurkerar.
  • 29. september – 11. nóvember Efri hæð: ÆVAFORNIR OG ÓMETANLEGIR LISTMUNIR FRÁ KÍNA. Sýning á kínverskum fornminjum og listmunum frá borginni Wuhan í Hubei héraði verður opnuð í Gerðarsafni sunnudaginn 30. september kl. 11. Sýningin er hluti af kínverskri menningarhátíð í Kópavogi og stendur til 7. október. Á sýningunni í Gerðarsafni er að finna 107 gripi, marga hverja ævaforna, en sýningin bregður ljósi á sérhvert tímabil í sögu Kína allt aftur til 31. aldar fyrir Krist (sem er um fimm hundruð árum áður en píramídi Keops var reistur í Egyptalandi). Ekki er vitað til þess að eldri listmunir hafi komið til landsins, en Þjóðminjasafn Íslands á þó í fórum sínum einhverjar norrænar fornleifar frá svipuðum tíma. Meðal sýningargripa eru munir úr bronsi og jaða, en þessi efni skipa svipaðan heiðurssess í kínverskri list og gull og demantar gera í hinum vestræna heimi. Einnig eru sýndir munir úr leir og postulíni, til dæmis frá Ming tímabilinu. Þá má líka sjá ýmsa skrautmuni útskorna úr bambus og gleri auk þess sem sýnd eru fágæt dæmi um lakklist, skrautskrift auk málverka á silki og pappír.
  • 11. nóvember - 18. janúar 2008 Efri hæð: ÚR SAFNEIGN. Í Gerðarsafni eru nú til sýnis eldri og nýrri verk úr eigu safnsins. Um er að ræða verk eftir helstu listamenn af abstraktkynslóðinni svo sem Eyborgu Guðmundsdóttur, Guðmundu Andrésdóttur, Hjörleif Sigurðsson, Karl Kvaran, Kristján Davíðsson, Nínu Tryggvadóttur og Þorvald Skúlason. Á sýningunni eru einnig verk eftir yngri listamenn og konur sem keypt hafa verið til safnsins á síðustu árum. Þetta eru þau Birgir Snæbjörn Birgisson, Erla Þórarinsdóttir, Guðrún Einarsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, JBK Ransu, Ragnheiður Jónsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Sigtryggur Baldvinsson og Tumi Magnússon. Loks eru sýnd fimm verk eftir Baltasar frá árunum 1974 til 1996 en hann er sem kunnugt er heiðurslistamaður Kópavogs árið 2007.