Næstu sýningar

Sýningar 2006

Yfirlit

  • 14. janúar - 12. febrúar Efri hæð: TVEIR HEIMAR. Á efri hæð safnsins er sýning Kristínar Þorkelsdóttur sem hún nefnir Tveir heimar. Í vestursal safnsins eru sýnishorn af grafískri hönnun Kristínar allt frá upphafi ferils hennar á síðari hluta sjötta áratugarins. Á sýningunni eru bókakápur, merki, peningaseðlar, umbúðir og margt fleira. Hönnun Kristínar er landsmönnum vel kunn. Um árabil rak hún Auglýsingastofu Kristínar, síðar Auk hf, ásamt Herði Daníelssyni eiginmanni sínum. Á ferli sínum hannaði hún fjölmörg merki ásamt umbúðum sem enn eru í notkun og við berjum augum daglega. Merkasta hönnun Kristínar er án efa núverandi peningaseðlarnir sem geyma menningarsögu þjóðarinnar. Í austursal safnsins sýnir Kristín nýjar vatnslitamyndir. Í rúmlega tvo áratugi hefur Kristín ferðast um landið og túlkað íslenska náttúru með vatnslitum. Í sýningarskrá sem ber heitið Kristín Þorkelsdóttir Tveir heimar fjallar Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur um vatnslitamyndir og hönnun Kristínar. Í skránni er einnig fróðlegt viðtal sem Guðmundur Oddur Magnússon tók við Kristínu um hönnunarferil hennar.
  • 14. janúar - 12. febrúar Neðri hæð: ÞRÆÐIR. Á neðri hæð safnsins er sýning sem ber heitið Þræðir. Á henni eru um 20 kjólar og yfirhafnir sem Guðrún Vigfúsdóttir hannaði og óf á meðan hún rak vefstofu á Ísafirði. Vefstofuna stofnaði Guðrún árið 1965 og rak í rösklega 20 ár. Markmiðið með vefstofunni var að hefja hinn forna ullariðnaðar til vegs og virðingar og vinna glæsilegar og nútímalegar flíkur frá grunni líkt og íslenskar konur gerðu fyrrum. Flíkur Guðrúnar eru oft í sauðalitum og hönnun sína byggir hún jöfnum þræði á íslenskri vefnaðarhefð og náttúru. Í módelkjólum Guðrúnar haldast íslenskur vefnaður og hönnun í hendur á einstakan hátt. Á sjöunda og áttunda áratugnum nutu ofnir kjólar Guðrúnar mikilla vinsælda og voru sýndir á mörgum tískusýningum hér heima og erlendis. Óhætt er að segja að fatnaður Guðrúnar standist vel tímans tönn. Þótt liðin séu 40 ár frá stofnun vefstofunnar eru flíkur hennar nútímalegar og sérlega áhugaverðar vegna þess hversu vel þær falla að tíðaranda dagsins í dag. Á sýningunni er einnig fjórir höklar sem Guðrún óf fyrir Digraneskirkju í Kópavogi.
  • 18. febrúar - 12. mars Efri hæð: ÁRLEG LJÓSMYNDASÝNING BLAÐALJÓSMYNDARAFÉLAGS ÍSLANDS. MYND ÁRSINS 2005. Á sýningunni eru um 230 blaðaljósmyndir frá síðastliðnu ári. Sýningunni er skipt í 8 flokka og eru þeir; fréttamyndir, íþróttir, portrett, myndraðir, daglegt líf, landslag, tímaritamyndir og skop. Þar gefur á að líta það besta sem íslensk blaðaljósmyndun hefur uppá að bjóða. Í dómnefndinni voru þeir Terje Bringedal, myndstjóri Verdens Gang í Noregi, Ari Sigvaldason, fréttamaður á RÚV og Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður. Dómnefndin valdi úr um 2000 myndum og verða veitt verðlaun fyrir bestu myndirnar í hverju flokki sem og fyrir Þjóðlegustu mynd ársins. www.pressphoto.is Samhliða sýningunni kemur út bókin "Myndir Ársins 2005" og er það Edda Miðlun sem gefur hana út. Neðri hæð: Í FJÖRTÍU ÁR Í BLÖÐUNUM. Gunnar hóf störf á Tímanum árið 1966 og hefur síðan þá verið að vinna í tengslum við ljósmyndun og starfar hann nú sem ljósmyndari hjá Útgáfufélaginu 365 fjölmiðlun. [ Frá umferðarbreytingunni úr vinstri umferð í hægri 26. maí 1968 ]
  • 18. mars - 23. apríl Allir salir: TÆRLEIKAR.  Sýning með verkum listamannanna, Elina Brotherus, Rúrí og Þórs Vigfússonar. Verk þessara listamanna hafa marga snertifleti enda þótt þau séu unnin í mismunandi efni og með ólíkum aðferðum. Tærleiki og skerpa í framsetningu einkennir verkin. Þau spegla margvíslega þætti samtímans og kallast á við umhverfið, áhorfandann og sjálf listamannsins. Finnska listakonan Elina Brotherus er meðal virtustu listamanna Finna af yngri kynslóð. Hún hefur haldið fjölmargar sýningar víða um lönd og hlotið margvíslegar viðurkenningar. Verk hennar eru í eigu margra safna. Elina Brotherus er þekkt fyrir ljósmyndaverk sem oft hafa sjálfsævisögulega skírskotun. Af myndum sem hún tekur af sjálfri sér birtist skörp og miskunnarlaus sýn, á köflum tregafull en alltaf tær.
  • 6. maí - 2. júlí Allir salir:  MAÐURINN Í NÁTTÚRUNNI. Náttúran í manninum Íslensk náttúra og mannlíf, Samar í Finnlandi, Grænland, Alpar og evrópskar borgir - allt þetta og meira til eru myndefni Guðmundar Einarssonar frá Miðdal (1895-1963) sem var einn af kunnari myndlistarmönnum landsins á sinni tíð. Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn – og Náttúrufræðistofa Kópavogs efna til sýningar á verkum listamannsins í anddyri og sölum beggja stofnananna. Þar er að finna úrval olíumynda, vatnslitamynda og skúlptúra í eigu einkaaðila, stofnanna og safna. Einnig eru sýndar þar allmargar og afar sjaldséðar grafíkmyndir ásamt fjölmörgum leirmunum sem búnir voru til í Listvinahúsinu frá um það bil 1930 til 1956 en Guðmundur var brautryðjandi á Íslandi í þessum listgreinum.
  • 19. ágúst - 1. október Efri hæð: AND – LIT Teikningar Valgerðar Briem (1914-2002). Valgerður kenndi myndlist í fimm áratugi, fyrst í tuttugu og fimm ár við Austurbæjarbarnaskólann, síðar við Myndlista- og handíðaskólann og Kennaraháskólann. Hún birti greinar um myndlistarkennslu, barna- og alþýðulist og íslenska og erlenda hönnun í dagblöðum og tímaritum. Valgerður var ástríðufullur teiknari. Eftir hana liggja hundruð teikninga þar sem opnast magnaðir og heillandi teikniheimar. Fæstar af teikningum Valgerðar hafa komið fyrir almenningssjónir vegna þess að hún var lítt fyrir það að bera verk sín á torg eins og hún orðaði það sjálf og sýndi því sjaldan á lífsleiðinni. Það er þess vegna fyrir löngu kominn tími til að kynna verk þessarar „huldukonu“ í íslenskri myndlist fyrir almenningi. Neðri hæð: TEIKN OG HNIT Vinnuteikningar fyrir steinda glerglugga í Reykholtskirkju. Árið 1991-1992 fór fram lokuð samkeppni um gerð glugganna og dómnefnd valdi tillögu Valgerðar. Vinna að uppdráttum fyrir glugga á austur- og vesturgafli kirkjunnar hófst árið 2001. Þeir voru fullbúnir í júlí 2003, unnir á glerverkstæði Dr. H. Oidtmann í Linnich í Þýskalandi. Árin 2004-2006 var unnið að teikningum og vinnslu glugganna í stúkum kirkjunnar.
  • 14. október - 10. desember KANADÍSK MENNINGARHÁTÍÐ.  HÚMOR, FEGURÐ OG STOLT. Sýningin er haldin í tengslum við kanadíska menningarhátíð í Kópavogi og inniheldur ljósmyndir, grafíkverk og fjölbreytta skúlptúra. Þessi nútímaverk gefa þetta skemmtilega innsýn inn í áhugaverðan hugarheim afkomenda frumbyggja sem tók á móti landnemum í Norður-Ameríku á sínum tíma, þar á meðal Vestur-Íslendingum. [Mynd: Philimone Nattuk, Fjölskylda við veiðar, 2000, Rostungstönn, Hreindýrshorn, Hvalbein, Pýroxen, Ljósmynd / Paul Dionne]. Vestur salur CARL BEAM.Þetta er í fyrsta skipti sem verk Carls Beam eru sýnd utan Norður Ameríku. Menningararfleifð indjána er yrkisefni Beam og hann vefur henni saman við vestræna hefð af miklu innsæi og húmor með blandaðri tækni og ljósmyndum. Carl Beam var sjálfur indíáni og lést í fyrra, en ekkja hans, Ann Beam, verður viðstödd opnun sýningarinnar og getur sagt sögu listamannsins sem er mjög áhugaverð. [Mynd: Carl Beam (1943-2005), Frá Hausaskeljastað til riddarasveitanna, 1991, Æting á pappír, 16/20, Safn Mr. Johns Cook]. Austur salur:  MYRON ZABOL. Zabol sýnir sviðsettar portrettljósmyndir frá árinu 2000 af Írókesa indjánum í hátíðarbúningum þjóðar sinnar. Myndirnar eru áhrifamikill vitnisburður um forna þjóð sem er að hefja vegferð inn í nýtt árþúsund með menningu sína, hefðbundin tákn og töfragripi að vopni. Verkin eru í eigu National Gallery of Canada, en Zabol hefur fengið tugi verðlauna og viðurkenninga um heim allan fyrir ljósmyndir sínar. [Mynd: Þjóð hins Dansandi Himins: Tsionatiio, (Hún prýðir þorpið) 1997, Silfur-gelatín, Móhíkani, Bjarnarættbálkur, Safn the Woodland Cultural Centre]. Neðri hæð: DÝRGRIPIR QUEBEC RÍKIS Í KANADA. Gerðarsafni hlotnast sá heiður að sýna nokkra af helstu dýrgripum þjóðarsafns Quebec ríkis í Kanada (Musée national des beaux-arts du Québec). Þessi fallegu verk eru unnin af kanadískum inúítum á síðari hluta tuttugustu aldar úr ýmsum steintegundum, beini, rostungstönn og fleiru. Þau einkennast af miklu listfengi og eru magnaður vitnisburður um óviðjafnanlegt handverk og áhugaverða menningarsögu. John R. Porter, forstjóri Musée national des beaux-arts verður viðstaddur opnun sýningarinnar. [Mynd: Mikisiti Saila, Himbrimi, 1992, Serpentín, Ljósmynd / Mnbaq – Patrick Altman].