Næstu sýningar

Sýningar 2005

Yfirlit

  • 15. janúar - 6. febrúar Austursalur: SNERTINGAR. Birgir Snæbjörn Birgisson sýnir verk úr tveimur myndröðum, Snertingar og Ljóshærðar starfstéttir. Umfjöllunarefni Birgis er tilraun mannsins til að fela ógnir heimsins bak við upphafnar myndir af hreinleikanum, hin stöðuga leit að "idealinu" eða þörf okkar til að nálgast fullkomnun á einn eða annan hátt, jafnt í ytra útliti sem því innra.
  • 15. janúar - 6. febrúar Vestursalur: OLÍULJÓS - ELÍAS B. HALLDÓRSSON. Elías vinnur verk sín með olíulitum ýmist á pappír eða striga. Þau skiptast í ljóðrænar landslags og húsamyndir og stærri abstraktverk. Innblástur sækir hann oft í náttúruna en það endurspeglast í heitum verka eins og Ferskur blær en einnig má lesa úr verkum hans vangaveltur um lífið og tilveruna. Neðri hæð: ÚRVAL VERKA. Úr einkasafni Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur. Sýning frá í desember framlengd. 
  • 12. febrúar - 20. mars Austur og vestursalur: ÁRLEG LJÓSMYNDASÝNING BLAÐALJÓSMYNDARAFÉLAGS ÍSLANDS. MYND ÁRSINS 2004. Hin árlega ljósmyndasýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands, Mynd ársins 2004, er nú haldin í tíunda sinn í Gerðarsafni. 42 ljósmyndarar tóku þátt í forvali og valdi dómnefnd 200 ljósmyndir á sýninguna af 1800 innsendum en það er metfjöldi. Samkvæmt venju verða veitt verðlaun fyrir Mynd ársins 2004. Að auki verða veitt verðlaun fyrir bestu myndir í eftirfarandi flokkum: Fréttamynd ársins Myndröð ársins Portreit ársins Íþróttamynd ársins Daglegt líf Landslagsmynd ársins Skopmynd ársins Þjóðlegasta mynd ársins Verðlaunamyndirnar verða birtar á heimasíðu Blaðaljósmyndarafélagsins að lokinni verðlaunaveitingu www.pressphoto.is. Neðri hæð: FRAMANDI HEIMUR. Ragnar eða Rax eins og hann er oftast kallaður er án efa meðal bestu samtímaljósmyndara á Íslandi og þó víðar væri leitað. Hann hefur löngum verið á faraldsfæti, bæði innanlands sem utan og er þekktur fyrir mannlífsmyndir sínar sem bera vitni einstakri nálægð við fólk og lífshætti sem eru óðum að hverfa.
  • 5. apríl - 7. apríl Allir salir: ICELAND 2005. Í tilefni af 50 ára afmæli Kópavogsbæjar verður dagana  5. – 7. apríl haldið alþjóðlegt glerlistaþing í Gerðarsafni, Salnum og Kórnum í Bókasafninu. Fjallað verður um verk Gerðar Helgadóttur. Franskir, þýskir og enskir fyrirlesarar munu tala um glerlist í Frakklandi og Þýskalandi og Parísarskólann á þeim tíma sem Gerður var að störfum. Einnig verður mikil áhersla lögð á samtímaglerlist, erlenda jafnt sem íslenska . Kynning verður á íslenskri list á þinginu og glerlist í íslenskum byggingum skoðuð ásamt því að fjórar veglegar sýningar glerlistamanna verða opnaðar í Kópavogi.
  • 2. apríl – 1. maí Efri hæð: MEISTARI GLERS OG MÁLMA - höggmyndir og steint gler eftir Gerði Helgadóttur Gerður Helgadóttir (1928-1975) var fjölhæf og afkastmikil listakona. Hún stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðan í Flórens og París, þar sem hún bjó mestan sinn starfsaldur. Með geómetrískum járnverkum á 6. áratugnum ávann Gerður sér sess sem frumkvöðull þrívíðrar abstraktlistar hér á landi. Síðan gerði hún myndir eingöngu úr hárfínum járnvírum sem mynda teikningu í rýminu. Mikil breyting varð á list Gerðar þegar hún fór að logsjóða úr bronsi. Form verkanna urðu óregluleg og lífræn og sjá má í þeim skyldleika við ljóðrænu abstraktlistina. Eftir ferð til Egyptalands árið 1966 má greina áhrif frá fornri egypskri list í verkum hennar. Um og upp úr 1970 taka við massamikil verk unnin úr gifs, leir og jafnvel steinsteypu sem einkennast af einföldum hringformum og hreyfingu í ýmsum tilbrigðum. Gerður var jafnframt frábær glerlistamaður og frumkvöðull á því sviði á Íslandi. Steindir gluggar eftir hana prýða sex kirkjur hér á landi. Þekktastir eru gluggar í Skálholtsdómkirkju og Kópavogskirkju. Starfsvettvangur Gerðar á sviði glerlistar var ekki síður í Þýskalandi. Þar vann hún glerglugga í fimm kirkjur ásamt stökum gluggum á einkaheimili. Helgigripi úr málmum eftir Gerði er einnig að finna í nokkrum þýskum kirkjum. Undir lok ferilsins vann Gerður eitt stærsta listaverk sem gert hefur verið á Íslandi, stóru mósaíkmyndina á Tollhúsinu í Hafnarstræti í Reykjavík, sem afhjúpuð var árið 1973. Tveimur árum síðar lést Gerður Helgadóttir langt fyrir aldur fram aðeins 47 ára að aldri. Neðri hæð: SAMRÆÐUR - verk eftir Caroline Swash.  Á sýningunni er steint gler, málverk, teikningar og ljósmyndir eftir bresku glerlistakonuna Caroline Swash. Innblástur í ný verk sækir listakonan í íslenska gripi sem varðveittir eru á söfnum í London. Einnig eru á sýningu hennar málverk, ljósmyndir og vinnuteikningar sem tengjast glerverkum sem hún hefur nýlega unnið í byggingar svo sem í dómkirkjuna í Gloucester, kirkju heilags Barnabas í Dulwich og höfuðstöðvar fyrir samtök MS sjúkra í London.
  • 2. apríl – 1. maí Salurinn: ANDI MANNS - glerlist eftir Leif Breiðfjörð Andi mannsins sem Leifur táknar með höfuðformi er gegnumgangandi þema á sýningu hans í forsal Salarins. Stórir steindir gluggar eru uppistaða sýningar Leifs að þessu sinni ásamt svífandi glerdrekum af ýmsum stærðum og gerðum ásamt verki unnu með blandaðri tækni. Í verkum Leifs má sjá óræðan texta, fljúgandi fugla og dulúðugar forynjur, spurul höfuð, sum með grímur og huliðshjálma í litríkri veröld furðufyrirbæra.
  • 2. apríl – 1. maí Anddyri Bókasafns og Náttúrufræðistofu: ÍSLENSKT SAMTÍMAGLER. Verk sjö íslenskra listamanna sem eiga það sameiginlegt að vinna verk sín að öllu eða miklu leyti úr gleri. Listamennirnir eru: Brynhildur Þorgeirsdóttir, Jón Jóhannsson, Jónas Bragi Jónasson, Pia Rakel Sverrisdóttir, Rakel Steinarsdóttir, Sigríður Ásgeirsdóttir og Sigrún Ó. Einarsdóttir.
  • 14. maí - 21. ágúst Allir salir: TÍMI, RÝMI, TILVERA. Sýningin er hluti af alþjóðlegri myndlistarsýningu á Listahátíð í Reykjavík, sýningarstjóri er Jessica Morgan. Á sýningunni í Gerðarsafni verða listamennirnir: Gabriel Kuri frá Mexíkó, Jennifer Allora og Guillermo Calzadilla sem vinna sameiginlega að sínum verkum og búa til skiptis í Massachusetts og Puerto Rico, Brian Jungen sem býr og starfar í Montreal og New York, íslendingarnir Hekla Dögg Jónsdóttir og Kristján Guðmundsson, Lundúnabúinn Jeremy Deller og John Latham sem kemur frá Bretlandseyjum.
  • 3. september - 2. október Allir salir:  MEISTARI KJARVAL 120 ÁRA.  Á aldarafmæli Jóhannesar Kjarval 15. október 1985 opnuðu Þorvaldur Guðmundsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir kona hans sýningu á verkum meistarans úr einkasafni sínu í sýningarsal í Háholti í Hafnarfirði. Safn þeirra hjóna hefur verið í vörslu Gerðarsafns síðast liðin fjögur ár og Kjarvalssýningin nú er haldin í tilefni þess að í ár eru 120 ára liðin frá fæðingu meistarans. Um leið minnumst við þeirra hjóna sem einna merkustu listaverkasafnara fyrr og síðar hér á landi. Þorvaldur dró enga dul á að hann mat Kjarval mest allra íslenskra listamanna og í safninu eru margar perlur meistarans, málverk, vatnslitamyndir og teikningar. 15. október - 4. desember Efri hæð Tími Romanovættarinnar í Rússlandi Ríkisminjasafnið Tsarskoje Selo er eitt stærsta og þekktasta safn í Rússlandi. Árið 1918 var sveitasetri keisaraættarinnar að Tsarskoje Selo breytt í sögu- og listasafn. Í tvær aldir var líf rússneskra þjóðhöfðingja samofið setrinu. Á sýningunni „Tími Romanovættarinnar í Rússlandi“ eru yfir 200 gripir.
  • 15. október - 4. desember Austur og vestursalur: Tími Romanov ættarinnar í Rúslandi. Munir frá Ríkismingjasfninu í Tsarskoje Selo í Pétursborg. Neðri hæð: ÍKONI. Hugmyndin sem liggur að baki þessarar sýningar er ekki aðeins sú að sýna tiltekinn fjölda íkona. Hugmyndin er að sýna íkonann sem tákn og ímynd leitar að andlegum gildum í list, sem hófst um svipað leyti á Íslandi og í Rússlandi fyrir meira en 1000 árum, eða kristnitökuárin 1000 og 988.