Næstu sýningar

Innra, með og á milli

Í blómstrandi listalífi Parísar árin 1950-70; í meistaranámi við The School of Visual Arts í New York, sumarlangt við Bard College í New York fylki og í Brooklyn árin uppúr 2010; í Beirút haustið 2016; á Íslandi frá 1920 og fram á daginn í dag; í Kaupmannahöfn árin 2016 og 2017; í Hollandi uppúr 1970; í Þýskalandi af og til 1960-1975; í Flórens á Ítalíu 1940-1950; í Kópavogi frá 1994 til dagsins í dag; í Egyptalandi haustið 1966.

Á sýningunni Innra, með og á milli er Gerði Helgadóttur (1928-1975) boðið að taka þátt í samfelldu samtali listamannanna Ragnheiðar Gestsdóttur (IS), Theresu Himmer (DK/IS) og Emily Weiner (US). Samtal þeirra og könnun á ólínulegri túlkun á stað og tíma, tungumáli og þýðingum tók á sig áþreifanlega mynd haustið 2015 þegar þær umbreyttu rannsóknum sínum í sýninguna Speak Nearby í Soloway í Brooklyn, New York. Listamennirnir kynnstust við MFA nám í School of Visual Arts í New York árið 2011.

Sýningunni í Gerðarsafni er ætlað að fanga vangaveltur um samhengi, tíma og skrásetningu sögunnar þar sem listamennirnir fjórir standa jafnfætis þvert á stað og tíma einhvers staðar inn á milli. 

Sýningarstjóri er Malene Dam, sem starfar í Kaupmannahöfn. Í starfi sínu hefur hún fengist við skrif um listir og menningu og sinnt sýningarstjórn sem gjarnan tengjast málefnum líðandi stundar, með áherslu á hinsegin og femínískan lestur og sögu, túlkun og erjur.


Mynd: Theresa Himmer, Rými vináttu (Elín), 2017