Næstu sýningar

Gerður Helgadóttir Sumarsýning 2013

Sumarsýning 2013 - Allir salir

Fyrsta einkasýning Gerðar Helgadóttur myndhöggvara (1928-75) hér á landi árið 1952 markaði tímamót í íslenskri sjónlistasögu.  Þessi unga listakona gerðist brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist með nýstárlegum járnverkum og tók fyrst kvenna forystu í höggmyndlist hérlendis.  Fáeinum árum síðar varð hún einnig frumkvöðull í glerlist á Íslandi. Steindir gluggar hennar í Skálholtskirkju frá 1959 eru sannkallað stórvirki og einstakt framlag til abstraktlistarinnar hér á landi.  Á næstu árum voru afköst Gerðar með ólíkindum og listsköpun hennar margvísleg, þar sem hvert tímabilið rak annað með fjölbreyttum og heillandi verkum, jafnt í þrívídd sem glerlist.

Mikil breyting verður á myndhugsun Gerðar þegar hún tekur að nota járn í verk sín árið 1951. Í stað mótaðra verka eða höggmynda í eiginlegum skilningi á sér stað samstilling málmþynna sem tengdar eru með vír. Það hefur í för með sér að unnið er með rými og form fremur en massa og rúmtak eins og í hefðbundinni höggmyndalist. Formin í járnverkum Gerðar eru hárfínir þríhyrningar sem hún gæðir mýkt og spennu með því að sneiða léttar boglínur í útlínur þeirra og sveigja þá síðan utan um rýmið. Í þessum verkum er unnið jafnt með rýmið utan sjálfs verksins sem innra rými þess, sjónarhornið innan þrívíddarinnar. Hangandi járnverk Gerðar frá þessum tíma, svokölluð svif, bera með sér að list hennar stefndi í átt að æ meiri fínleika. Árið 1953 tekur Gerður að gera verk úr sívölum vírþráðum. Hún teiknar kompósisjónir og mótar eftir þeim geómetrísk líkön úr þráðunum. Heita má að massi og rúmtak sé nánast horfið í þessum verkum, svo hárfín er afmörkun rýmisins og í þeim birtist hið óefniskennda á nýstárlegan hátt. Áhugi Gerðar á dulspeki á þessum tíma helst í hendur við fínleikann og efnisleysið í verkum hennar og þegar hún tekur árið 1955 að fella glersteina inn í höggmyndir sínar má sjá í þeim sterka skírskotun til krafta sem búa í alheiminum. Á árunum 1956-58 verða form og uppbygging í víraverkunum mun flóknari en áður og líkjast mikið formum í glergluggunum í Skálholtskirkju sem hún byggði á talnatáknfræði. Dæmi um járn- og víraverk Gerðar eru í Vestursalnum.

Þegar Gerður byrjar að logsjóða úr bronsi árið 1959 taka verk hennar miklum stakkaskiptum. Óregluleg og lífræn form einkenna nú verkin sem oftast mynda lokaða heild sem opnast frjálslega út í rýmið. Bronsið er auðveldara í logsuðu en járnið. Gerður þróar verkin jafnóðum með fíngerðum bronsbútum og form og áferð taka stöðugum breytingum meðan á gerð þeirra stendur. Hin frjálsu og lausmótuðu form bronsverkanna eru augljóslega skyld ljóðræna abstraktinu í málverkinu. Nöfn bronsverkanna sýna að myndefnið sótt í náttúruna, sögu og mannlíf eða heim tónlistarinnar. Í byrjun sjöunda áratugarins tekur Gerður aftur til við að móta í gifs og leir. Hún notar oft einföld hringform í þessum verkum, opnar tóm í miðju þeirra og mótar út frá því hreyfingu í ýmsum tilbrigðum. Samhliða mótuðu verkunum hélt Gerður áfram að vinna í brons. Í Austursal eru dæmi um logsoðin bronsverk og afsteypur úr bronsi, gerðar eftir mótuðum gifs- og/eða leirverkum.

Sérstakur kafli í list Gerðar hefst í árslok 1966 þegar hún lætur gamlan draum rætast og ferðast til Egyptalands í leit að innblæstri fyrir verk sín. Næstu tvö árin eftir heimkomuna verður áhrifa frá ferðinni vart og bersýnilegt að hið stórbrotna í egypskri list hefur heldur ekki látið Gerði ósnortna. Hún mótar efnismikil verk úr steinsteypu og lágmyndir úr gifsi. Í sumum verkanna fellir hún litað og ólitað gler inn steinsteypuverkin þannig að höggmyndir og glerlist blandast í einu og sama verkinu. Þá gengur hið algilda trúartákn „Augað alsjáandi“ eins og rauður þráður í gegnum mörg þessara verka og líta má á fíngerð formin sem mótuð eru á yfirborð þeirra sem eins konar nútímalegt tilbrigði við egypskt myndletur. Dæmi um þessi egypsku áhrif í list Gerðar eru í salnum á neðri hæð. Þar eru líka skissur og tillögur að mósaíkmyndum sem Gerður vann, meðal annars tillögur að altaristöflu fyrir Kópavogskirkju frá árinu 1971 sem sóknarnefndin hafnaði. Gerður starfaði mestan hluta ævi sinnar erlendis, einkum í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi. Fjölmörg verk eftir hana er að finna í opinberum byggingum og á einkaheimilum á meginlandinu. Gerður lést 47 ára að aldri árið 1975. Tveimur árum síðar færðu erfingjar hennar Kópavogsbæ að gjöf 1400 verk úr dánarbúi hennar. Sú höfðinglega gjöf var stofninn að Gerðarsafni sem tók til starfa árið 1994.