Næstu sýningar

NEW RELEASE

13.8.-11.10.2015

Á sýningunni NEW RELEASE er reynt á þolmörk sniðmengis tónlistar og myndlistar en sýningin er hluti alþjóðlegu listahátíðarinar CYCLE sem fór fram í menningarhúsum og almenningsrýmum í Kópavogi 13.-16. ágúst. Á sýningunni eru verk íslenskra og erlendra listamanna sem standa á mörkum samtímatónlistar, gjörningalistar, myndlistar og hljóðlistar.

NEW RELEASE er undir stjórn breska sýningarstjórans Nadim Samman. Samman er breskur sýningarstjóri búsettur í Berlín. Hann er annar tveggja stjórnenda Import Projects, ritstjóri Near East Magazine og sýningarstjóri hjá Thyssen-Bornemisza Art Contemporary. Hann lærði heimspeki við University College London áður en hann lauk doktorsgráðu í Listasögu við Courtauld Institute of Art. Nadim stýrði fjórða Marrakech tvíæringnum ásamt Carson Chan 2012. Á síðasta ári sýningarstýrði hann Antarctopia: The Antarctic Pavilion, fjórtánda Feneyjartvíæringnum í arkitektúr og Treasure of Lima: A Buried Exhibition sem var einstök staðarsýning á Kyrrahafseyjunni Isla del Coco.

Listamenn sýningarinnar eru Andreas Greiner (DE) & Tyler Friedman (US), Berglind María Tómasdóttir (IS), Bergrún Snæbjörnsdóttir (IS), Boris Ondreička (SK), Charles Stankievech (CA), Christina Kubisch (DE), Curver Thoroddsen (IS), Einar Torfi Einarsson (IS), Gjörningaklúbburinn (IS), Hulda Rós Guðnadóttir (IS), Jeremy Shaw (CA), Katrína Mogensen (IS), Logi Leó Gunnarsson (IS), Ólafur Elíasson (DK/IS), Sigtryggur Berg Sigmarsson (IS), Sigurður Guðjónsson (IS) & Þráinn Hjálmarsson (IS).NEW RELEASE


Hvaðan kemur tónlistin, og hvernig er henni miðlað til okkar? Er tónlistin undantekning frá reglu þagnarinnar eða hið fullkoma lögmál? Þjónum við hlutverki tónskálda, eða erum við aðeins miðlar tónlistarinnar, líkt og hljóðfæri? Í NEW RELEASE mætast íslenskir og erlendir listamenn, sem allir eiga það sameiginlegt að skapa tónlist sem tónar við þessar spurningar.

Upphaf kenningarinnar um sólina sem miðpunkt sólkerfisins, sem varðaði leiðina inn í tímabil rökhyggju og vísindi, sló skugga á einn mikilvægasta þátt myndmáls í klassískri tónlist: kenningu Pýþagórasar um hljómfall himintunglanna (the harmony of the spheres). Í stað stórbrotins hljóms himingeimsins, sem snerti alla hluti, lifandi og dauða, og veitti þeim kraft, sló þögn á alheiminn. Innan þessa óendanlega tómarúms var jörðin eins og lítið hvísl, umlukin þöglum veggjum tómsins. Samkvæmt hugmyndum rómantíska tímabilsins varð tónlistin því að "myndum máluðum á þögnina". Það var ekki fyrr en vestrænn listamaður tileinkaði sér Zen-heimspekina, að mótvægi myndaðist við þessari vofu hins óendanlega hljóð-tóms, og kom með nýja tónlistarlega heimsmynd, með frumsetningu í formi píanóverks sem varði í fjórar mínútur og þrjátíu og þrjár sekúndur, þar sem píanóleikarinn snerti aldrei hljóðfærið. Þessi endurskilgreining tónlistarheimsins var annað og meira en inlegg í umræðu; hún fléttaðist saman við tækniframfarirnar og rökhyggjuna - þar með talið könnun himingeimsins. Síðan þá hefur stórhuga fólk víkkað út mörk tónlistarlegra möguleika. Í dag getum við tekið upp rafsegulbylgjur pláneta, og samið tónlist úr rafsegultíðni plantna. Að því leytinu til væri hægt að líta á nútímatónskáld sem (sjálfspilandi?) hljóðfæri sem færir í form ákveðna alheimslaglínu. Í einu tilfelli gæti tónskáldið, á meðan tónverkið er samið, átt samhljóm með hljóðfæri sem bersýnilega er lagrænt (t.d. gítar). Í öðru tilfelli gæti það samsamað sig við vatn eða rafsegulbylgjur. Hver er uppspretta tónlistarinnar? Sameindir? Tvíundakerfið? Tákn? Ásetningur? Kolefni? Eða ef til vill blanda af þessu öllu. Dreifing nútímatónlistar er róttæk, jafnt í innra sem ytra rými. Með þetta í huga hefst nú nýr dagur eiginlegrar alheimstónlistar. Í sýningunni NEW RELEASE má finna úrval af fyrstu nótum og frösum þess nýja dags.

Þó felur sýningin einnig í sér ákveðið mótstef: er mögulegt að við getum upplifað okkur sem einhverskonar úttaksgögn tölvu - hjartslátt í formi línurits - eða "like"? Þótt við séum aðeins lítill jarðskiki í heimi alheimstónlistar, getur sú tónlist ekki tekið á sig mynd í okkur - eitt augnablik? Og á þessu augnabliki, hverju miðlum við sem einstaklingar? Þegar við skoðum alheimstónlist og allar hennar birtingarmyndir, hvað skilur á milli hljóðfæris og upplifunar - þess mannlega og hins ómannlega? NEW RELEASE spilar með þessar hugmyndir.

 Nadim Samman, sýningarstjóri