Næstu sýningar

Útskriftarsýning MA frá Listaháskóla Íslands

Meistaranemar í myndlist og hönnun

Laugardaginn 18. apríl kl. 14:00 verður opnuð útskriftarsýning meistaranema í hönnun og myndlist frá Listaháskóla Íslands í Gerðarsafni, Kópavogi.

Alþjóðlegt meistaranám í myndlist og hönnun hófst í Listaháskóla Íslands haustið 2012 og er þetta því annar árgangur útskriftarnema námsbrautanna sem setur fram útskriftarverkefni sín til opinberrar sýningar og MA varna. Á sýningunni má sjá afrakstur tveggja ára háskólanáms á meistarastigi þar sem hönnuðir og myndlistarmenn hafa fengið tækifæri til að þróa og styrkja rannsóknir sínar á viðkomandi fagsviðum. Áhersla er lögð á skapandi og greinandi hugsun sem nýtist við framsækin verkefni á sviðum hönnunar og myndlistar á Íslandi.

Í MA námi í myndlist er nemendum skapaður vettvangur til að dýpka og auka þekkingu sína á sviði samtímamyndlistar, styrkja persónulega sýn og tengja listsköpun sína við fræðilegar forsendur fagsins. Í MA námi í hönnun býðst nemendum vettvangur til umbreytingaferlis sem tekur mið af 21. aldar áskorunum og viðfangsefnum. Námið undirbyggir skilning á tengingum í skapandi umbreytingu og hönnunarhugsun sem undirbyggir nýbreytni og nýsköpun í lífsháttum og pólitísku umhverfi.

Hér leggja fjórtán nemendur fram verk sín; átta í hönnun og sex í myndlist. Þau eru: Arite Fricke, Brynja Þóra Guðnadóttir, Droplaug Benediktsdóttir, Fiona Mary Cribben, Hjálmar Baldursson, Jiao Jiaoni, Li Yiwei and Magnús Elvar Jónsson af MA námsbraut í hönnun. Jonathan Boutefeu, Linn Björklund, Soffia Guðrún KR Jóhannsdóttir, Solveig Thoroddsen, Carmel Seymour and Unnur Guðrún Óttarsdóttir af MA námsbraut í myndlist.   

Sýningarstjóri er Sirra Sigrún Sigurðardóttir.

Breidd og sérhæfing í verki

Myndlistarverkin á sýningunni endurspegla breidd og sérhæfingu verkefna nemenda og rannsókna. Þar eru skoðaðar hugmyndir um persónulegt rými og mótun sjálfsvitundar á framandi stað, um helgisiði heimilishalds og málun sem dulskyggni og um óvænt fagurfræðilegt samband naumhyggjustefnu í myndlist og byggingarefnis til heimasmíði. Svonefnd speglunarkenning sálgreiningar og listmeðferðar er virkjuð í verkum sem miða að því að vekja skynrænar upplifanir áhorfenda. Gestgjafi býður dísætar sykursprengjur af rausn til áminningar um viðvarandi stríðsátök í samtímanum og kraftmikilar persónur frá ýmsum tímum sögunnar stígar fram í innsetningu teikninga, vídeós og gjörnings í safninu.

Hönnunarverkefnin á sýningunni eru öll dæmi um hugsunarhátt sem felur í sér möguleika til stækkunar og byggja á samþættingu þekkingar samstarfsaðila hönnuðanna og þeirra sem hannað er fyrir. Verkefnin eru öll notendamiðuð og í þeim öllum kallar hönnuður eftir enn víðara samstarfi á breiðum þekkingargrunni. Þannig eru þessi verkefni dæmi um góða hönnun. Hönnun sem lýsir grundvallarskilningi á þörfum annarra og skilningi á nauðsyn þess að samþætta fjölbreytileg og margþætt viðhorf og tengsl í hönnunarferli og afurðir hönnunar.

Sýningin stendur til 10. maí og er opin alla daga, kl. 11-17:00 nema mánudaga.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.


LEIÐSAGNIR:

Sunnudaginn 26. apríl kl. 15 

Leiðsögn með útskriftarnemendum í myndlist um sýninguna

Sunnudaginn 3. maí kl. 15 

Leiðsögn með útskriftarnemendum í hönnun um sýninguna

Sunnudagurinn 10. maí kl. 15-17 

Komið og hittið útskriftarnemendur, síðasti sýningardagur.  


SÉRSTAKIR VIÐBURÐIR: 

Laugardaginn 18. apríl

Kl. 14 opnun sýningar

Kl. 15 Berglind, gjörningur eftir Soffíu Guðrúnu Kr Jóhannsdóttur

Alla daga nema mánudaga kl. 15-17 

Solveig Thoroddsen býður upp á nýbakaðar sætar sprengjur

Sunnudaginn 3. maí kl. 14  

Hugarflug, Arite Fricke verður með vinnustofu í  flugdrekagerð


Tengiliður: Anna Dröfn Ágústsdóttir, annadrofn@lhi.is, sími: 867-426