Næstu sýningar

Myndir ársins 2013 og Eyjar í 65 ár

Árleg sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands

Sýningin Myndir ársins 2013 var opnuð við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni í dag, 15. febrúar. Á sýningunni eru bestu myndir félaga í Blaðaljósmyndarafélagi Íslands frá árinu 2013, ásamt bestu myndskeiðum fréttatökumanna. Um 1.000 myndir voru sendar inn í myndasamkeppni BLÍ en sex manna dómnefnd valdi þær 160 myndir sem prýða sýninguna. Dómnefnd valdi einnig þær myndir sem þóttu skara fram úr í hverjum flokki auk þess að velja mynd ársins. Íslandsbanki og VÍB eru samstarfsaðilar BLÍ við sýninguna Myndir ársins 2013


Á neðri hæð Gerðarsafns opnaði BLÍ einnig sérsýningu á myndum Sigurgeirs Jónassonar, ljósmyndara úr Vestmannaeyjum – Eyjar í 65 ár.

Að sama tilefni var jafnframt valið myndskeið ársins frá fréttatökumönnum ljósavakamiðla. Myndskeið ársins tók Baldur Hrafnkell Jónsson.

Mynd ársins tók Páll Stefánsson af Maylis Lasserre, franskri stúlku sem var týnd á Vestfjörðum í tvo daga. Myndin var einnig valin portrett mynd ársins. Umsögn dómnefndar: Tilfinningaþrungið portrait sem fangar athygli áhorfanda samstundis, vekur upp óræðnar tilfinningarog lætur áhorfandan vilja vita meira um viðfangsefnið, hver er hún, hvað kom fyrir.

Fréttamynd ársins tók Sigtryggur Ari Jóhannesson af Karli Vigni Þorsteinssyni er hann var færður fyrir héraðsdómara. Umsögn dómnefndar: Þetta er ákaflega einföld og vel uppbyggð fréttamynd. Styrkur hennar felst í samspilimagnþrunginnar birtu og einfaldleikanum sem kalla fram sterk hughrif. Hún markar endalokin á langri og sorglegri sögu afbrotamanns sem öll þjóðin var meðvituð um.

Myndröð ársins tók Kjartan Þorbjörnsson af Guðmundi Felix Grétarssyni. Guðmundur missti báða handleggina í vinnuslysi árið 1998 og hefur þurft hjálp við daglegt líf síðan. Árið 2013 fór hann til Frakklands þar sem þarlendir læknar hafa ákveðið að reyna að græða á hann nýjar hendur. Síðustu vikuna fyrir brottför var mikið að gera og ljósmyndari fylgdist með. Umsögn dómnefndar: Frábær og vel unnin myndröð sem lýsir vel þeim erfiðleikum sem Guðmundur Felix Grétarsson þarf að mæta daglega. Hér er á ferðinni myndröð með mörgum góðum og sterkum myndum.

Íþróttamynd ársins tók Árni Torfason af Anítu Hinriksdóttur. Umsögn dómnefndar: Hin rísandi unga stjarna Aníta Hinriksdóttir er í brennipunkti þessarar listfengnu myndar sem kemur til skila bæði hraða og hreyfingu.

Sýningin stendur til 23. mars. Viðskiptavinir Íslandsbanka fá 50 % afslátt af aðgangseyri.