Gerður Helgadóttir

1928 - 1975

Gerður Helgadóttir (1928 – 1975) var fjölhæfur myndlistarmaður sem fékkst við skúlptúr, steint gler og mósaík. Hún stundaði nám við Handíðaskólann og hélt fyrst íslenskra myndlistarmanna til Flórens í nám árið 1949. Fljótlega þar á eftir hélt hún til Parísar, þar sem hún bjó og starfaði mestan hluta ævi sinnar. 

Með geómetrískum járnverkum á 6. áratugnum ávann Gerður sér sess sem frumkvöðull þrívíðrar abstraktlistar hér á landi. Síðan gerði hún myndir eingöngu úr hárfínum járnvírum sem mynda teikningu í rýminu. Mikil breyting varð á list Gerðar þegar hún fór að logsjóða úr bronsi. Form verkanna urðu óregluleg og lífræn og sjá má í þeim skyldleika við ljóðrænu abstraktlistina. Eftir ferð til Egyptalands árið 1966 má greina áhrif frá fornri egypskri list í verkum hennar. Um og upp úr 1970 taka við verk unnin úr gifsi, leir og jafnvel steinsteypu sem einkennast af einföldum hringformum og hreyfingu í ýmsum tilbrigðum. Mörg þessara verka eru hugsuð sem frummyndir að öðrum stærri. 

Þótt Gerður liti fyrst og fremst á sig sem myndhöggvara var hún einnig virtur glerlistamaður, bæði hér heima og erlendis. Steindir gluggar eftir hana prýða nokkrar kirkjur hér á landi. Þekktastir eru gluggar í Skálholtsdómkirkju og Kópavogskirkju. Einnig eru gluggar eftir Gerði í nokkrum kirkjum í Þýskalandi. Þekktasta verk Gerðar hér á landi er án efa stóra mósaíkmyndin frá árinu 1973 á Tollhúsinu í Hafnarstræti í Reykjavík.


Fylgstu með okkur


Opnunartími

Þriðjudaga - föstudaga 11.00 - 17.00
Laugardaga - sunnudaga 11.00 - 17.00

Lokað á mánudögum

Aðgangseyrir er 1000 kr.

Námsmenn 500 kr. Frítt fyrir börn og ungmenni yngri en 18 ára,
aldraða, öryrkja og félaga í SÍM, ICOM, FÍMK, FÍSOS gegn framvísun skírteinis.

Frítt á miðvikudögum