Einkasafn Þorvaldar og Ingibjargar

Í vörslu Gerðarsafns frá árinu 2001

Þetta stærsta einkasafn landsins er nú í vörslu Listasafns Kópavogs. Í safninu er að finna margar perlur íslenskrar myndlistar. Þar á meðal eru málverk og teikningar eftir Jóhannes S. Kjarval og Lífshlaupið, fjórir veggir úr vinnustofu meistarans í Austurstræti með myndum úr lífsins ólgusjó, atvinnulífi, sveita- og borgarlífi. Í safninu eru einnig verk eftir alla aðra helstu listamenn þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar svo sem Þórarin B. Þorláksson, Guðmund Thorsteinsson (Mugg), Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson, Kristínu Jónsdóttur og Júlíönu Sveinsdóttur svo einhverjir séu nefndir. Þorvaldur Guðmundsson (1911-1998) var einn af mestu athafnamönnum síðari tíma. Hann var brautryðjandi í lagmetisiðnaði, kjötvinnslu og hótel- og veitingarekstri. Ingibjörg (1908-2004) eiginkona Þorvaldar tók virkan þátt í starfi manns síns og bæði voru miklir fagurkerar. Það var alla tíð vilji þeirra hjóna að safn þeirra væri til sýnis fyrir almenning. Um það er Hótel Holt lýsandi dæmi þar sem hluti hins mikla listasafns þeirra prýðir veggi.