Leiðsagnir

Almennir hópar

Gerðarsafn býður upp á sérsniðnar leiðsagnir fyrir almenna hópa eftir samkomulagi. Leiðsagnirnar eru í boði fyrir stóra og smærri hópa, þar á meðal félagasamtök, vina- og starfsmannahópa og ferðamenn. Leiðsagnir eru hópnum að kostnaðarlausu á opnunartímum safnsins fyrir utan almennan aðgangseyri að safninu.


Táknmálstúlkun og sjónleiðsögn fyrir blinda og sjónskerta er veitt samkvæmt samkomulagi. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er gott á safninu og komið til móts við einstaklinga og hópa fólks með sérþarfir.

Vinsamlegast bókið leiðsagnir með góðum fyrirvara á netfangið gerdarsafn@kopavogur.isSkólahópar

Gerðarsafn býður upp á leiðsagnir og safnfræðslu fyrir nemendur af öllum skólastigum. Safnið býður upp á leiðsögn um yfirstandandi sýningar alla virka daga skólum að kostnaðarlausu. Heimsóknin tekur um klukkustund en semja má um styttri eða lengri heimsókn sé þess óskað. Skólahópum er einnig velkomið að koma á safnið án leiðsagnar safnkennara. Mælt er með að hópar sem koma á eigin vegum láti safnið vita af komu sinni.

Vinsamlegast bókið leiðsagnir með góðum fyrirvara á netfangið gerdarsafn@kopavogur.is


Hvernig lesum við myndlist?

Boðið er upp á leiðsögn um yfirstandandi sýningu þar sem við kynnumst grunnatriðum í myndlæsi og túlkun listaverka. Við skoðum hvernig myndlist tengist okkar hversdagslífi og rýnum í form, liti og myndbyggingu verka. Við ræðum hvernig hægt er að túlka verkin á mismunandi hátt og hvað það sé sem geri þau að listaverkum. 
Teiknileikurinn Kvik strik

Boðið er upp á listsmiðju í Gerðarsafni þar sem við kynnumst sýningum safnsins í gegnum teiknileikinn Kvik strik. Smiðjan hefst á teiknileik í fræðslurýminu Stúdíó Gerðar þar sem við teiknum daginn okkar með einni samfelldri línu og segjum sögur með teikningunni einni saman. Við kynnumst svo verkum sýningar með því að búa til teiknaða sögu úr sýningunni og teikna verk eftir minni.
Heimsókn í Stúdíó Gerðar

Boðið er upp á heimsókn í vinnustofu Gerðar Helgadóttur þar sem við kynnumst verkum hennar og gerum okkar eigin listaverk. Við skoðum skúlptúra Gerðar í +SAFNEIGNINNI og kynnumst notkun hennar á grunnformum og þrívídd. Við vinnum síðan eigin listaverk innblásin af verkum hennar í Stúdíói Gerðar, þar á meðal geómetríska skúlptúra úr óhefðbundnum efnum. 


Leiðsagnirnar henta öllum aldurshópum og má aðlaga að þörfum skólahópsins. Lengd leiðsagnar er sveigjanleg en alla jafna tekur heimsókn á safnið um 30-60 mín. 

Tekið er við skráningum í skólaheimsóknir hjá Brynju Sveinsdóttur í 441 7603 / brynjas@kopavogur.is og hjá móttöku safnsins í 441 7601 / gerdarsafn@kopavogur.is


Sameiginlegar heimsóknir í menningarhúsin í Hamraborg

Boðið er upp á sameiginlega fræðsludagskrá fyrir skólahópa í Gerðarsafni, Bókasafni Kópavogs, Náttúrufræðistofu og Héraðsskjalasafninu sem standa saman við Hamraborg. Skólahópum er velkomið að heimsækja nokkur menningarhús í einu til að fræðast um myndlist, náttúrufræði og bókmenntir allt í sömu ferð. Að neðan má sjá þemaheimsóknir í Menningarhúsin fyrir ákveðnar bekkjardeildir en skólum er velkomið að setja saman eigin heimsókn allt árið um kring.

Boðið verður upp á skipulagðar þemaheimsóknir í tvö menningarhús fyrir ákveðna skólabekki í vor. 
Heimsókn tekur um 30-45 mín á hverjum stað og er því mælt með að fara í mest þrjár heimsóknir í hverri ferð. Fyrirspurnum um heimsóknir í menningarhúsin er beint til Ólafar Breiðfjörð í 441 7607  menningarhusin@kopavogur.is

Menningarhúsin í Kópavogi standa við Hamraborg sem tengist strætóleiðum 1, 2, 4, 28 og 35  - sjá 
leiðakort.