Listamannaspjall / Innra, með og á milli

Sunnudaginn 25. juní 15:00

Sunnudaginn 25. júní kl. 15 munu listamennirnir Ragnheiður Gestsdóttir og Theresa Himmer taka þátt í spjalli um sýninguna Innra, með og á milli og veita gestum frekari innsýn í verk sín.

Á sýningunni er Gerði Helgadóttur (1928-1975) boðið að taka þátt í samfelldu samtali listamannanna Ragnheiðar Gestsdóttur (IS), Theresu Himmer (DK/IS) og Emily Weiner (US). Samtal þeirra og könnun á ólínulegri túlkun á stað og tíma, tungumáli og þýðingum tók á sig áþreifanlega mynd haustið 2015 þegar þær umbreyttu rannsóknum sínum í sýninguna Speak Nearby í Soloway í Brooklyn, New York. Listamennirnir kynntust við MFA nám í School of Visual Arts í New York árið 2011. Sýningunni er ætlað að fanga vangaveltur um samhengi, tíma og skrásetningu sögunnar þar sem listamennirnir fjórir standa jafnfætis þvert á stað og tíma – einhvers staðar inn á milli.

Ragnheiður Gestsdóttir (f. 1975) er upptekin af þrá mannsins eftir samræmi og fegurð og leit hans að hinum heilaga sannleika. Hún varpar fram spurningum um vald, kerfi og tungumál og spyr hver hafi aðgang að því að flokka og skrásetja veruleikann og út frá hvaða sjónarhorni það sé gert. Ragnheiður nýtir sér bakgrunn sinn í sjónrænni mannfræði í listsköpun sinni, fag sem rýnir í sviðsetningu og sjónræna framsetningu á menningu í samhengi við vald.

Theresa Himmer (f. 1976) er danskur myndlistarmaður og arkitekt sem býr og starfar á Íslandi. Theresa kannar upplifanir og hugmyndir um staði, staðbundnar ímyndir og minningar, hvort sem um er að ræða ljósmyndir, vídeó eða innsetningar í almenningsrýmum. Listrannsóknir hennar leitast við að varpa ljósi á eiginleg og óeiginleg rými og virkni þeirra með vísun í arkitektúr, poppmenningu og sálgreiningu.


Allir velkomnir

Aðgangseyrir í sýninguna gildir á viðburðinn.

Frítt er inn fyrir eldri borgara og börn og ungmenni yngri en 18 ára